Umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2017 fara til Landhelgisgæslu Íslands

Undanfarin ár hafa Faxaflóahafnir sf. tilnefnt fyrirtæki á hafnarsvæði sínu, þ.e. Akranes, Bogarnes, Grundartanga og Reykjavík, til umhverfisverðlauna fyrirtækisins. Verðlaunaafhendingin fer fram á sama tíma og ársskýrsla fyrirtækisins er opinberuð fyrir almenningi.

Fjörusteinn umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2017 hlýtur Landhelgisgæsla Íslands.

Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð 1. júlí 1926. Það sama ár kom til landsins gufuskipið Óðinn sem var fyrsta varðskipið sem smíðað var fyrir Íslendinga. Skipið hafði aðstöðu í þá tæplega 10 ára gömlu Reykjavíkurhöfn og hefur Landhelgisgæslan verið við höfnina alla tíð síðan. Landhelgisgæslan hefur staðið vörð um fiskimið þjóðarinnar, unnið björgunarstörf, og sinnt margvíslegum þjónustuverkum við strendur landsins, í hartnær hundrað ár.

Ábyrgð Landhelgisgæslunnar er afar mikil en hún felst ekki aðeins í því að hafa eftirlit með hafinu umhverfis Ísland heldur einnig að sinna leitar- og björgunarstörfum ásamt umhverfiseftirliti á yfir 1,8 milljóna ferkílómetra svæði sem er meira en tvöfalt stærra en efnahagslögsaga landsins. Á því svæði sinna starfsmenn Landhelgisgæslunnar störfum sínum á einu erfiðasta hafsvæði á jörðinni.

Landhelgisgæslan hefur frá upphafi átt heimahöfn í Gömlu höfninni í Reykjavík. Þar hafa skip Landhelgisgæslunnar haft aðstöðu, en varðskýli þeirra er nú staðsett á Faxagarði. Varðskipin Týr, Ægir og Þór hafa þar aðstöðu auk eftirlits- og sjómælingaskipsins Baldurs. Að jafnaði eru tvö varðskip á sjó, en auk þess að sinna öryggis- og löggæsluhlutverkum stofnunarinnar, sinna skipin löggæslu, leit, björgun og aðstoð við sjófarendur. Landhelgisgæslan gegnir einnig lykilhlutverki komi upp menguraróhöpp á sjó við Ísland.

Í Vesturhöfninni er varðskipið Óðinn. Notkun þess lauk árið 2006. Í framhaldi af því færði Landhelgisgæslan Hollvinasamtökum Óðins og Sjóminjasafninu í Reykjavík skipið til varðveislu. Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öld og er nú einn glæsilegasti sýningargripur sjóminjasafnsins og setur um leið svip á Gömlu höfnina.

Um árabil hafa skip Landhelgisgæslunnar verið tengd rafmagni í viðlegu þeirra í Reykjavík. Landhelgisgæslan var á sínum tíma brautryðjandi í notun á hitaveituvatni til upphitunar á skipum í höfn. Nokkuð sem fleiri útgerðir hafa tekið upp síðan. Þannig hefur gæslan nýtt endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis þegar varðskipin eru í heimahöfn. Landhelgisgæslan hefur þanni öðrum til eftirbreytni. Svæðið er ávallt vel hirt, enda mikið lagt upp úr snyrtimennsku í kringum starfstöðvar Landhelgisgæslunnar og vel gengið um hafnarmannvirki. Íslenska fánanum er flaggað við varðskýlið alla daga og er mikil prýði af því.

Landhelgisgæsla Íslands er því vel að því komið að hljóta umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2017. Það var Georg Kr. Lárussson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands. sem tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins.  Faxaflóahafnir sf. óskar Landhelgisgæslu Íslands innilega til hamingju með Fjörusteinsverðlaunin árið 2017!

18766897_10154968330850432_1133905270_o

Dagur B. Eggertsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna sf. afhendir umhverfisverðlaun fyrirtækisins til Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslu Íslands.

18789800_10154968330180432_561473930_o

Umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf., Fjörusteinninn 2017, hlaut Landhelgisgæsla Íslands. Á myndinni eru, frá vinstri: Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna sf., Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunar og Dagur B. Eggertsson stjórnarformaður Faxaflóahafna sf.

Verðlaunahafar að Fjörusteininum síðustu árin eru eftirfarandi:

2007  Eimskipafélag Íslands
2008  Nathan og Olsen hf
2009  Egilsson ehf
2010  Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
2011  Lýsi hf
2012  Samskip hf
2013  Elding – hvalaskoðun ehf
2014  HB Grandi hf
2015  Íslenski Sjávarklasinn ehf
2016  Special Tours
2017  Landhelgisgæsla Íslands

Óhætt er að segja að þau fyrirtæki sem hafa hlotið Fjörusteininn hafi verið vel að því komin að hljóta umhverfisverðlaunum Faxaflóahafna sf., og hafa verðlaunin á margan hátt ýtt undir betri umgengni á hafnarsvæðum svo og allt umhverfi og sett sér umhverfisstefnu sem miðar að betri umgengni .