Viðskiptasendinefnd til Nuuk,  24. – 26. október 2013

Fulltrúar Faxaflóahafna:
Ágúst Ágústsson
Gísli Jóhann Hallsson
Skipuleggjendur viðskiptasendinefndar til Nuuk, í fjórða skiptið, eru Flugfélag Íslands, Íslandsstofa og Verslunarráð Íslands og Grænlands. Í þetta sinn voru 50 fulltrúar frá Íslandi og 30 fyrirtæki í Nuuk þessa daga. Seinni partur fimmtudags og fyrri hluti föstudags eru skipulagðir í fundi á milli fyrirtækja en á seinni hluta föstudags eru fyrirtækin með opna bása í Katuaq, (Menningarhús Grænlendinga) þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að spjalla við íslendingana. Aðalræðismaður Íslands á Grænlandi Pétur Ásgeirsson, sendiherra,  skipaður í ágúst á þessu ári, bauð síðan til móttöku.
2013-10-26 10.51.28Það fer ekki framhjá þeim sem heimsækja Grænland í dag að það eru breytingar í farvatninu. Yngra fólk með meiri menntun og stærri sjóndeildarhring knýr nú dyra með kröfur um sjálfstæði Grænlands. Þjóðernisvakning er á næsta leyti og oft er vitnað í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Grænlendingar vilja meiri samvinnu við Íslendinga og kemur það m.a. fram í því að íslendingur var tilnefndur í stjórn eins stærsta ríkisfyrirtækisins. Nú sjást íslenskar vörur í matvörubúðum og mjólkurvörur frá Íslandi skipa sinn sess eftir að reglulegt áætlunarflug hófst til Nuuk. Helstu hindranir í því að byggja upp frekari samskipti við Grænland eru stopular samgöngur á sjó og tungumálavandi.
Miðað við þær framkvæmdir sem nú þegar eru í vinnslu á sviði olíu- og gasvinnslu, námugreftri og fiskveiðum má búast við miklum efnahagslegum vexti á Grænlandi á næstu árum og í kjölfarið þjóðfélagslegum breytingum.
Fulltrúar Faxaflóahafna áttu fundi með eftirtöldum fyrirtækjum:
Royal Arctic Line (Skipafélag Grænlensku heimastjórnarinnar)
Lars Borris Pedersen
Royal Arctic Line er að láta byggja 5 skip í Póllandi sem stendur, öll miðuð við aðstæður í Grænlandi. Reiknað er með að innan fárra ára verði það sett í lög að öll skip sem sigla í lögsögu Grænlands brenni dieselolíu og ekki verði leyfilegt að hafa svartolíu um borð og við þetta er miðað í nýsmíðinni.
Hafnaraðstaðan í Nuuk er ófullnægjandi í dag og lengi hefur staðið til að stækka höfnina. Fljótlega verður tekin ákvörðun um þetta mál en deilt er um það hvort núverandi tillaga eigi að standa en sú gerir ráð fyrir að eigendur hafnarinnar verði sveitafélagið, Royal Arctic Line, Álaborgarhöfn og ríkissjóður. Samtals mun framkvæmdin kosta 600 milljónir DKR og allt bendir til þess að það verði ríkissjóður sem fjármagni framkvæmdina og verði eigandi mannvirkisins.
Royal Arctic Line mun bjóða fram flutningaþjónustu til London Mining, fyrirtækisins sem undirritaður var samningur við 24. október s.l.,  um réttindi til að grafa járngrýti úr jörðu norðaustur af Nuuk. Uppbyggingin á svæðinu þar sem náman  er staðsett verður gífurleg, en ekkert er þar í dag. Byggja þarf höfn, þorp og setja upp tæki og tól til námuvinnslu. Samkvæmt upplýsingum verða ca. 200.000 tonn af járngrýti flutt  á viku til Kína og talið er að það þurfi í það minnsta 12 skip til að sinna þessu verkefni. Áætlað er að byggja höfnina í Kína og flytja hana til Grænlands og eins er ljóst að þörf er á nokkrum dráttarbátum af stærstu gerð til að sinna þessum stóru skipum. Lagt er til að Faxaflóahafnir sf. hafi beint samband við framkvæmdaaðila hjá London Mining,  þega framkvæmdir hefjast.
Í tengslum við almenna flutninga endurnýjaði Eimskip samning við Royal Arctic Line á meðan á heimsókninni stóð og TVG Zimsen undirritaði samstarfssamning við Royal Arctic Logistics.
Við bentum Lars á ýmsar hugmyndir í tengslum við Grundartanga og flutninga til/frá Grænlandi og buðum honum, og hans mönnum, að koma við og kynna sér starfsemi Faxaflóahafna. Við munum í framhaldinu halda uppi samskiptum við Lars og fleiri sem við þekkjum innan Royal Arctic Line.
Cairn – Capricorn Greenland Exploration 1 Ltd
Kuno Fencker, Greenland Operation Coordinator
 
Kuno Fencker sér um að samhæfa aðgerðir Cairn á Grænlandi og hefur aðsetur í Nuuk.
Cairn er það olíufélag sem komið er einna lengst í þvi að leita að olíu og gasi við Grænland og er úthlutað svæði þeirra norðvestur af Disko eyju en áður höfðu þeir prufað að bora við suðuroddann. Samtals eru þeir búnir að nota um það bil sex milljarða dollara og hafa ekki fundið olíu ennþá en telja sig vera mjög „heita“. Þegar olía finnst í nægjanlegu magni tekur það ca. 10 ár þar til hægt er að hefja dælingu og flutninga til lands á afurðinni.
Skilyrði eru mjög krefjandi við Grænland og aðeins hægt að vinna 3 – 4 mánuði á ári við leitina. Þá eru 1.400 starfsmenn í vinnu og er skipt í x vikna tímabil, hver vakt 700 menn. Flogið er með starfsmenn frá Evrópu til Grænlands við vaktaskiptin. Kuno nefndi sérstaklega að það væri spennandi kostur að nota íslensku flugfélögin til að safna saman starfsmönnum t.d. í Keflavík og fljuga síðan með þá til Kangerlussuaq (Söndre Strömfjord) eða Aasiaat (Egedsminde). Síðan er farið með þyrlu út á pallana. Efnisleg aðföng koma frá Aberdeen og eru 3 – 4 skip í förum með ýmsan varning sem settur er á land í Aasiaat, en þar er nokkuð erfitt um vik vegna plássleysis.
Ísinn veldur mestum erfiðleikum við rannsóknir og leit að olíu. Cairn hefur því þróað kerfi sem kallast „Icemanagement“ sem felst í mjög fullkomnu radarkerfi ásamt öllu tiltæku til að færa ísinn, jafnvel sprauta vatni til að framkalla bráðnun.
Kuno Fencker upplýsti að búið væri að úthluta leitarsvæði við norðaustur Grænland og þar hæfist mat á umhverfisáhrifum á næsta ári. Þegar rannsóknir og leit hefst þar er nauðsynlegt að opna svæði í ísbreiðunni og halda svæðinu hreinu með ísbrjótum en reiknað er með að hægt sé að athafna sig þar í ca. 2 mánuði í einu á ári.
Spurður um möguleika okkar á Íslandi að koma að verkefnum sagði hann að fyrirtækin sem stunda olíuleit á Grænlandi skuldbindi sig til að láta Grænlenska hagsmuni ganga fyrir,  svo fremi að þeir dygðu til að uppfylla sett skilyrði. Hann skoðaði aðstöðu Faxaflóahafna í Reykjavik og Grundartanga í okkar bæklingi og ítrekaði að grænlenskir hagsmunir gengu fyrir, en ef og þegar þörf væri á hafnaraðstöðu kæmi Reykjavik vel til greina.
Mikilvægt er að halda sambandi við Kuno Fencker til að fá upplýsingar og hann sýnir Íslandi mikinn áhuga.
Ministry of Industry and Labour Market ( Greenland self Government)
Jeppe Holt Jensen
Simon Maul Hansen
 
Jeppe og Simon vinna að skýrslu um samkeppnishæfni grænlenskra hafna og í því sambandi hvað megi laga í gjaldtöku. Þeir hafa Akureyri sem viðmið en hafa einnig notað gjaldskrá Faxaflóahafna.  Markmiðið er að gera Grænland samkeppnishæfari en jafnframt að hámarka tekjur af þeim skipum sem koma til hafna á Grænlandi. Þeir horfa sérstaklega á skemmtiferðaskip, en þar setur heimastjórnin DKR 525 gjald á alla farþega sem koma með skipum og auk þess er tekið fullt hafnargjald.
Þeir félagar koma einnig að þróun atvinnumála. Í því sambandi töluðum við um samstarf sem fælist í því að nota Reykjavík sem skiptihöfn fyrir farþega sem kæmu með flugi úr hinum ýmsu heimshlutum en flugnetið til Íslands er orðið nokkuð gott. Þessir farþegar færu síðan um borð í skemmtiferðaskip til Grænlands og færu heim frá Reykjavik aftur með flugi. Þetta verkefni þjónar hagsmunum beggja.
Í framtíðinni vilja þeir gjarnan skiptast á upplýsingum um þróun atvinnumála og stefnumótun á Íslandi í sambandi við ferðamennsku og fleira.

FaxaportsFaxaports linkedin