Markmið Faxaflóahafna sf. er að fyrirtækið sé slysalaus vinnustaður þar sem öryggi starfsfólks er haft að leiðarljósi. Faxaflóahafnir sf. leggja metnað sinn í að hafa aðstæður á starfsstöðum sínum sem allra bestar þannig að starfsfólk  sé eins öruggt og kostur er. Faxaflóahafnir leggja til allan nauðsynlegan öryggisbúnað sem ætlast er til að starfsfólk noti í störfum sínum fyrir fyrirtækið. 
 
Starfsfólk Faxaflóahafna skal fylgja eftirfarandi:
 
·          Allt starfsfólk skal hljóta  nýliðafræðslu samkvæmt gátlista, þar sem kynntar eru allar starfsstöðvar fyrirtækisins og farið yfir öryggistæki.
·          Starfsfólk skal hafa tilskylda þekkingu og þjálfun til að sinna störfum sínum á öruggan hátt.  Tryggt skal að starfsfólk hafi nauðsynlega yfirsýn og þjálfun og hafi tilskilin réttindi, þar sem þess er krafist.
·          Starfsfólk skal halda vinnusvæðum sínum hreinum, hættulausum og snyrtilegum þannig að ástand eigna Faxaflóahafna sé alltaf eins og best verður á kosið.
·          Starfsfólk skal sýna frumkvæði í að bera kennsl á óöruggar aðstæður eða varhugaverða hegðun fólks og finni viðeigandi úrræði.
·          Starfsfólk skal undantekningarlaust nota viðeigandi persónu- og öryggishlífar þar sem þeirra er krafist er við störf þess.
·          Á framkvæmdasvæðum Faxaflóahafna skal nota öryggishjálm.
·          Starfsfólk Bækistöðvar skal almennt nota öryggishjálma, fatnað í öryggislit, öryggisskó og hlífðargleraugu þegar unnið er með vélum og tækjum sem hætta getur stafað af.
·          Starfsfólk Hafnarþjónustu skal við móttöku skipa nota bjargvesti, fatnað í öryggislit og öryggishjálma. 
·          Allar persónu- og öryggishlífar skulu vera af viðurkenndri gerð.
·          Starfsfólk skal ávallt mæta vel hvílt til vinnu þannig að það hafi fulla athygli við störf sín og stuðli þannig að öryggi  á starfsstöð sinni.
·          Flóttaleiðir og neyðarútgangar allra starfsstöðva Faxaflóahafna skulu ávallt vera greiðar þannig að þær megi nota hindrunarlaust hvenær sem er.
·          Starfsfólki er skylt að tilkynna slys eða hættu á slysum til næsta yfirmanns, sem ber að skrá öll slík atvik.
·          Faxaflóahafnir heimila ekki reykingar á vinnustað og eru reykingar bannaðar í bifreiðum og húsakynnum Faxaflóahafna. Þar sem sérstök reykherbergi eru til staðar eru reykingar heimilar.
·          Öll neysla áfengis og vímuefna er stranglega bönnuð.
 
Öllu starfsfólki ber skylda til að framfylgja öryggisreglum á vinnustaðnum og að tryggja öryggi í starfi eins og framast er kostur.   
                                                                                             
Þannig samþykkt á fundi öryggisnefndar Faxaflóahafna sf. 20. apríl 2009.
 
 
____________________________
Gísli Gíslason, hafnarstjóri
FaxaportsFaxaports linkedin