Eineltisstefna Faxaflóahafna sf.

Faxaflóahafnir sf. leggja áherslu á að skapa og viðhalda starfsumhverfi þar sem gagnkvæm virðing, traust, heilindi og fagmannalegt viðmót er í hávegum haft í öllum samskiptum.  Faxaflóahafnir sf. á að vera öruggur staður til að vinna á. Hvorki einelti né annað ofbeldi verður undir nokkrum kringumstæðum liðið innan vinnustaðarins.  Meðvirkni í einelti er fordæmd.  Lögð er áhersla að leysa þau mál sem kunna að koma á farsælan og skjótan hátt, samkvæmt þar til gerðum verklagsreglum. Tekið verður á réttmætum og fölskum ásökunum um einelti af sömu festu.

Faxaflóahafnir sf. líður ekki einelti af hvaða toga sem það er af hálfu starfsmanna og skuldbindur sig að:

 • Fræða starfsmenn um hvernig einelti er skilgreint, hvað í því felst og hvert birtingarformið getur verið.
 • Leggja áherslu á farsæl og skjót viðbrögð við mögulegum eineltismálum innan fyrirtækisins.
 • Sinna eftir samræmdum verkferlum um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi, á faglegan og óhlutdrægan hátt.
 • Gæta jafnræðis og nærgætni í öllum aðgerðum.

Stefna þessi gildir fyrir alla starfsmenn Faxaflóahafna sf., óháð starfsstöð. Gildir stefnan jafnframt fyrir öll vinnutengd störf s.s. á ráðstefnum, námskeiðum, ferðalögum og öðrum félagslegum samkomum sem tengjast vinnustaðnum.

Ábyrgð og skyldur stjórnenda

Stjórnendur bera ábyrgð á því að viðhalda góðu starfsumhverfi sem er laust við einelti. Í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur jafnframt fram að atvinnurekendur og yfirmenn stofnana skuli gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk þeirra verði við einelti og áreitni á vinnustað

Mikilvægt er að hafa í huga að sérhver starfsmaður getur orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi í starfi. Ef tilkynnt er um meint einelt, áreitni eða ofbeldi af hálfu yfirmanns verður hann eða hún vanhæf til að ákvarða um vinnuskilyrði tilkynnanda á meðan á könnun máls stendur og skal næsti yfirmaður taka ákvarðanir er varða meintan þolanda eða málinu vísað til hafnarstjóra.

Réttindi, hlutverk og ábyrgð starfsfólks

Ætlast er til að starfsmenn Faxaflóahafna sf. framfylgi og styðji framgang stefnunnar með því að:

 • Hegða sér í hvívetna á faglegan hátt, með virðingu fyrir öðrum að leiðarljósi
 • Upplýsa þar til bæra aðila um meint einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi sem hann/hún hefur vitneskju um. Þeir aðilar sem taka á móti slíkum ábendingum eru: Yfirmaður og trúnaðarmaður fyrirtækis.
 • Virða rétt allra og gæta trúnaðar um persónuleg mál.
 • Stuðli að því að stefnunni sé framfylgt.

Hvað er einelti?

„Einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.  Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns, eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan“.

Reglugerð nr. 1000/2004, 3. grein

 

Birtingarform eineltis

 • Uppnefningar, baktal, niðrandi athugasemdir og hótanir
 • Ítrekað „grín“ sem beinist að einum ákveðnum einstaklingi
 • Hæðst að menningu trú, húðlit, útliti, þyngd, fötlun eða heilsuleysi einstaklings
 • Munnlegar lygasögur, illkvittin og/eða upplogin smáskilaboð (SMS), bloggskrif, bréfaskriftir, blaðagreinar, vefsíður eða tölvupóstar
 • Ákveðnir einstaklingar hunsaðir eða útilokaðir
 • Samstarfsfólk talið frá því að spjalla eða vingast við ákveðna einstaklinga
 • Neitað að vinna með ákveðnum einstaklingum
 • Eigur eyðilagðar
 • Líkamlegar meiðingar


Eineltisstefna