Aðalfundur Faxaflóahafna var haldinn 4. júní í höfuðstöðvum hafnanna á Tryggvagötu þar sem ársskýrslan fyrir 2024 var kynnt fyrir eigendum hafnarinnar og er skýrslan nú aðgengileg á rafrænu formi á vefsíðu Faxaflóahafna https://www.faxafloahafnir.is/arsskyrslur/.
Samantekt 2024:
- Tekjur ársins námu 6.463 m.kr, sem er 12,1% yfir áætlun og EBITDA 2.222 m.kr. Helstu ástæður þessa jákvæða fráviks eru að skemmtiferðaskipin sem stunda hér farþegaskipti eru að kaupa meiri þjónustu en ráð var fyrir gert og vöruflutningar hafa aukist umfram hagvaxtarspá.
- Á árinu voru 1451 skipakomur til allra hafna Faxaflóahafna. 321.966 farþegar komu eða fóru með skemmtiferðaskipi um höfnina, sem er 5,1% aukning frá árinu áður og er jafnframt metfjöldi skipafarþega. 412.874 gámaeiningar (TEU) fóru um hafnarsvæði, sem er 6% samdráttur frá árinu áður. 80.200 tonnum af sjáfarafurðum var landað árinu og er það 32,7% samdráttur frá árinu áður.
- Við hófum á árinu byggingu farþegamiðstöðvar við Skarfabakka og er hún stærsta fjárfesting félagsins um þessar mundir. Allt er enn á áætlun og gert er ráð fyrir að hún verður tekin í notkun fyrir sumarvertíð næsta árs. Stjórnvöld kynntu á síðasta ári áform um breytingar á skattaumhverfi skemmtiferðaskipa. Valda þær töluverðri óvissu í greininni, en hún er nú orðin næst stærsta tekjulind Faxaflóahafna, á eftir farmflutningum.
- Framkvæmdir við lengingu aðalhafnargarðs í Akraneshöfn héldu áfram og landtengingarbúnaður fyrir skemmtiferðaskip í gömlu höfninni var útvíkkaður þ.a. nú getur hann þjónað Miðbakka.
- Faxaflóahafnir stefna að því að draga úr losun og auka hlutdeild hreinna orkugjafa í allri starfsemi sinni. Nú eru um 70% ökutækja í eigu hafnanna knúin hreinni orku – þar af 19 rafbílar og einn metanbíll. Notkun á jarðefnaeldsneyti hefur dregist saman um fjórðung frá fyrra ári, og um 60% frá 2016 – þrátt fyrir aukin umsvif.
- Stefna Faxaflóahafna er að enginn verði fyrir slysi í vinnu hjá fyrirtækinu. Ánægjuleg þróun varð á árinu þar sem engin fjarveruslys urðu, en næstum slys og skyndihjálparslys voru jafnmörg og árið áður.