Cruise Europe eru samtök rúmlega 140 hafna, áfangastaða og þjónustuaðila í Evrópu, allt frá Lissabon í Portugal til Svalbarða í norðri. Samtökin voru stofnuð árið 1991 með það markmið að auka samvinnu aðildarfélaga og markaðssetja Norður- og Atlantshafshluta Evrópu sem ákjósanlegan áfangastað skemmtiferðaskipa. Fram að því hafði Karabíska hafið og Miðjarðarhafið verið helsti áfangastaður gesta skemmtiferðaskipa, en nú rúmlega 30 árum síðar hefur tekist að festa Norður og Vesturhluta Evrópu sem vinsælan áfangastað skipagesta frá öllum heiminum.

Á hinni árlegu ráðstefnu sem Cruise Europe samtökin héldu að þessu sinni í Kaupmannahöfn, tilkynnti Jens Skrede framkvæmdastjóri samtakanna að árið 2026 myndi ráðstefnan verða haldin í Reykjavík. Þessi árlegi viðburður þar sem aðildarfélögin koma saman til að ræða það helsta sem er á döfinni hverju sinni, hefur verið haldinn frá stofnun árið 1991. Árið 2026 verður hins vegar fyrsta skiptið sem ráðstefnan verður haldin á  Íslandi. Reykjavíkurhöfn var einn af stofnaðilum samtakanna og er það því mikill heiður fyrir Faxaflóahafnir að fá að hýsa þennan mikilvæga viðburð hjá skemmtiferðaskipageiranum í Evrópu.

Gunnar Tryggvason hafnarstjóri fagnar því að Cruise Europe hafi valið Reykjavík sem staðsetningu næsta ársfundar.  „Komum skemmtiferðaskipa til Íslands hefur fjölgað verulega á síðustu árum og Reykjavík orðin ein af stóru höfnunum í Evrópu í þessum geira.  Nýja farþegamiðstöðin verður komin í notkun næsta vor og því hentar þessi tímasetning einstaklega vel fyrir okkur.  Ætla má að stjórnendur skipafélaganna heimsæki Reykjavík að þessu tilefni og vonandi felst í því markaðstækifæri sem nýst gæti fleiri höfnum á Íslandi.“

Reiknað er með nærri 300 ráðstefnugestum

Áfangastaðurinn Reykjavík ásamt Íslandi öllu hefur fest sig í sessi meðal farþega skemmtiferðaskipa, hvort heldur sem um er að ræða almennar viðkomur eða farþegaskipti, þar sem ferð hefst eða endar á Íslandi. Því er áætlað að útgerðir skemmtiferðaskipa, evrópskar hafnir og þjónustuaðilar muni fjölmenna til að taka þátt í ráðstefnunni Cruise Europe Reykjavik 2026. Nýta þar tækifæri til að skoða nýja farþegamiðstöð Faxaflóahafna og þá hafnaraðstöðu sem hefur verið í stöðugri þróun undanfarin ár. Samhliða því að geta tekið þátt í umræðum hafna, áfangastaða og skipafélaga um vegferð skemmtiferðaskipageirans í Evrópu í átt að sjálfbærni í umhverfismálum, samfélagslegum áherslum jafnt sem og fjárhagslegum áhrifum.

FaxaportsFaxaports linkedin