Cruise Europe eru samtök rúmlega 140 hafna, áfangastaða og þjónustuaðila í Evrópu, allt frá Lissabon í Portúgal til Svalbarða í norðri. Reykjavíkurhöfn, síðar Faxaflóahafnir, var stofnaðili samtakanna þegar þau voru stofnuð árið 1991, með það markmið að auka samvinnu aðildarhafna og þjónustuaðila og markaðssetja Norður- og Atlantshafshluta Evrópu sem ákjósanlegan áfangastað skemmtiferðaskipa.
Á hinni árlegu ráðstefnu sem samtökin héldu að þessu sinni í Kaupmannahöfn, var yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna Gísli Jóhann Hallsson kosinn í stjórn Cruise Europe. Mun Gísli sitja í stjórninni fyrir hönd hafna á Íslandi, Noregi og Færeyjum ásamt Grethe Parker frá höfninni í Narvík í Noregi. Áherslur Gísla eru öryggismál hafna varðandi siglingar skipa, bætt hafnaraðstaða og þjónusta við skip og farþega ásamt þróun á DOKK bókunarhugbúnaði sem eru allt þættir sem munu nýtast í stjórnarstarfi hjá Cruise Europe, til hagsbóta fyrir geirann í heild. Í ljósi krefjandi veðuraðstæðna við Ísland hefur Gísli leitt greiningu fyrir á strangari veðurviðmið við komu og brottfarir skipa sem innleidd verða á næstu vikum í höfnum Faxaflóahafna ásamt því að stuðla að aukinni þjálfun hafnsögumanna og skipstjóra dráttarbáta.
Skemmtiferðaskipageirinn er þjónustugeiri sem hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum og hafa Faxaflóahafnir brugðist við með stórbættri aðstöðu, nýjum þjónustuliðum og nýsköpun í formi áframþróunar á DOKK bókunarkerfinu. Það góða starf á stuttum tíma er til fyrirmyndar jafnt innanlands sem erlendis og má þar nefna að erlendar hafnir frá meðal annars Bandaríkjunum hafa heimsótt Faxaflóahafnir til að kynna sér hvernig móttaka skemmtiferðaskipa getur farið fram við oft mjög krefjandi aðstæður.