Við hjá Faxaflóahöfnum höfum gert samstarfssamning við íslenska orkutæknifyrirtækið SnerpaPower um notkun á hugbúnaðarlausn fyrirtækisins til að styðja við rafvæðingu hafnarinnar. Með tilkomu fyrirhugaðra stærri landtenginga og tengingu fleiri skipa mun raforkuþörf hafnarsvæðisins aukast verulega. Þetta skapar áskoranir fyrir bæði orkudreifingu og rekstur innviða. Það gerir fyrirsjáanleika, áætlanagerð og hagkvæmni í raforkukaupum að lykilatriðum. Lausn SnerpaPower mun styðja Faxaflóahafnir í því að bregðast við þessari þróun á öruggan, sjálfbæran og kostnaðarskilvirkan hátt.

Verkefnið er mikilvægt skref í átt að aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í hafnarstarfsemi og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Minni skemmtiferðaskip sem koma í Gömlu höfnina eru nú þegar farin að nýta landtengingu á Miðbakka og Faxagarði og draga þannig úr notkun jarðefnaeldsneytis. Fram undan eru enn stærri landtengingarverkefni sem munu gera stærri skipum kleift að tengjast landrafmagni, og er innleiðing hugbúnaðarins liður í undirbúningi þeirra verkefna.

Samkvæmt samningnum mun SnerpaPower útvega Faxaflóahöfnum öflugt orkustýringarkerfi sem er sérstaklega hannað til að spá fyrir um raforkunotkun hafnarinnar og hámarka nýtingu rafinnviða á skilvirkan hátt. Tæknin mun einfalda rekstur, auka orkunýtni og styðja við metnaðarfull markmið Faxaflóahafna í sjálfbærni.

„Við erum virkilega spennt fyrir samstarfinu við SnerpaPower. Rafvæðing hafna er mikilvægur þáttur í aðgerðaáætlun Íslands um að verða leiðandi í loftslagsvænum siglingum á heimsvísu. Í því samhengi er lausn SnerpaPower mikilvæg til að tryggja hagkvæmni og hámarksnýtingu innviða,“ segir J. Snæfríður Einarsdóttir, sviðsstjóri hafnarinnviða hjá Faxaflóahöfnum.

Hugbúnaðarlausn SnerpaPower gerir Faxaflóahöfnum kleift að nýta rauntímagögn og sjálfvirknivæða áætlanagerð um raforkunotkun, bæta eftirlit með raforkukostnaði og uppfylla samningsskyldur. Lausnin styður jafnframt við framtíðaráform Faxaflóahafna um ný og umfangsmeiri landtengingarverkefni á hafnarsvæðum.

Við hjá SnerpaPower erum afar stolt af því að geta stutt Faxaflóahafnir í að efla sjálfbærni í rekstri íslenskra hafna,“ segir Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri hjá SnerpaPower. „Hugbúnaðarlausnir okkar gera höfnum kleift að mæta orkuþörf sinna viðskiptavina á skilvirkan og hagkvæman hátt. Það er virkilega ánægjulegt að styðja við metnaðarfulla vegferð Faxaflóahafna í orkuskiptum.

Samstarfið fellur vel að loftslags- og umhverfisáætlunum Íslands og undirstrikar skuldbindingu Faxaflóahafna um sjálfbæran rekstur og nýsköpun í orkumálum.

FaxaportsFaxaports linkedin