Faxaflóahafnir hafa bætt rafmagnsvörubíl við ökutækjaflota hafnarinnar, sem sinnir víðfeðmu starfssvæði í Reykjavík, Akranesi, Grundartanga og Borgarnesi alla daga ársins. Hinn nýi rafmagnsvörubíll, sem er af gerðinni Scania P25 B6x2*4NB, mun draga úr kolefnisspori fyrirtækisins um allt að 18 tonn á ári og draga úr árlegum innkaupum á dísilolíu um 40% samanborið við árið 2023. Scania vörubíllinn er þriggja öxla með föstum 6 metra palli og krana sem getur lyft upp í 17,5 metra hæð og 900 kg. Vörubíllinn er 100% rafknúinn með 230 kW afli, 310 hestöflum og heilum 9 rafgeymum.

Á síðustu fjórum árum hefur náðst góður árangur í orkuskiptum ökutækja Faxaflóahafna. Í lok árs 2024 eru 19 af 28 ökutækjum hreinorkutæki. Þessi orkuskipti hafa þýtt að innkaupum á eldsneyti á ökutæki hafa dregist saman um 43% á milli áranna 2021 og 2023.

 

Öll ökutæki verði hreinorkutæki fyrir 2030

Hlutverk Faxaflóahafna er að reka öruggar, grænar og skilvirkar hafnir. Nýi rafmagnsvörubíllinn er þannig hluti af stærra verkefni fyrirtækisins um að innleiða vistvænni tæknilausnir í daglegum rekstri og stefna að því að minnka kolefnisspor í innri rekstri og tryggja að öll ökutæki fyrirtækisins verði hreinorkutæki fyrir árið 2030. „Þetta er stór áfangi fyrir okkur í átt að því að gera starfsemi okkar umhverfisvænni. Við leggjum okkur fram við að vera leiðandi í sjálfbærum lausnum á hafnarsvæðum og munum halda áfram að fjárfesta í grænum lausnum,“ segir Gyða Mjöll Ingólfsdóttir umhverfis- og gæðastjóri Faxaflóahafna.

FaxaportsFaxaports linkedin