Stjórn Faxaflóahafna samþykkti fjárhagsáætlun ársins 2020 á fundi sínum föstudaginn 20. september.  Þá var einnig samþykkt rammaáætlun áranna 2021-2024 og gjaldskrá fyrir árið 2020.

Megin forsendur fjárhagsáætlunar eru eftirfarandi:

 • Miðað verði við óbreytt umfang í vöruflutningum, afla, fjölda skipa og stærð skipa milli áranna 2019 og 2020.
 • Almenn verðbreyting gjaldskrár 1.1. 2020 eru 2,5%.
 • Áætlað er að tekjur af lóðarleigu hækki um 2,2%. Álagningarhlutfall lóðarleigu verður óbreytt:
  • Álagning lóða í Reykjavík 2,15% af fasteignamati.
  • Álagning farmsvæða stærri en 5 ha. 2,0% af fasteignamati.
  • Álagning á Grundartanga 2,35% af fasteignamati.
 • Farmverndargjald er 20% af vörugjöldum – en lækkar í 18% af vörugjöldum.
 • Úrgangsgjald samkvæmt ákvæðum gjaldskrár er nú 0,80 kr. pr. brt. en lækkar og verður 0,40 kr. pr. brt. auk þess sem hámarksgjald lækkar.
 • Í gjaldskrá verður gert ráð fyrir gjaldi vegna þjónustu nýs dráttarbáts, en gerð er tillaga að gjaldið miðist við gjaldskrá Magna fyrstu sex mánuði ársins þar til reynsla er komin á nýja bátinn. Á fyrri hluta ársins verði síðan gerð tillaga um nýtt gjald fyrir notkun bátsins.
 • Verðbreytingar á almenna rekstrarliðið verða 3,2%
 • Breytingar á launakostnaði miðast við samninga á almennum vinnumarkaði.

Gert er ráð fyrir að tekjur ársins 2020 verði 4.249,2 mkr., sem er 1,9%  hækkun miðað við áætlaða niðurstöðu ársins 2019.  Rekstrargjöld eru áætluð 3.577,4 mkr. sem er tæp 5,3% hækkun frá áætlaðri niðurstöðu ársins 2019.

Í fjárhagsáætlun ársins 2020 eru nokkur verkefni sem vert er að nefna sérstaklega:

  • Meginframkvæmdum við nýjan Sundabakka lýkur fyrir árslok 2019. Eftir sem áður eru ýmis umhverfis- og frágangsverkefni sem þarf að sinna áfram.
  • Dýpkun í Viðeyjarsundi er í undirbúningi og mun standa yfir um nokkurn tíma þegar nauðsynleg leyfi til framkvæmda liggja fyrir.
  • Gert er ráð fyrir að hefja undirbúning að lengingu Skarfabakka yfir að Kleppsbakka með tilheyrandi landfyllingu í Vatnagörðum og uppkaupum eigna vegna framtíðar skipulags.
  • Áfram verður haldið með landfyllingu utan Klettagarða.
  • Á Akranesi er gert ráð fyrir útboði á stálþili og upphafsframkvæmdum við endurnýjun á ytri hluta Aðalhafnargarðs og lengingu hans með tilheyrandi dýpkun
  • Gert er ráð fyrir verklokum við aðstöðu hafsækinnar ferðaþjónustu við Ægisgarð.
  • Gert er ráð fyrir fjármunum í fyrstu skref íuppsetningu háspennubúnaðar vegna landtengingu stærri skipa í Sundahöfn og endurbætur og styrkingu á rafmagnsbúnaði fyrir skip í Gömlu höfninni.
  • Gerð er tillaga að kaupum á mælitækjum til að fylgjast með loftgæðum í nágrenni Sundahafnar.

Nánari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi greinargerð og sundurliðun áætlunar fyrir árið 2020, en einnig fylgir áætluninni sundurliðun verkefna árin 2021 til 2024 og gjaldskrá sem tekur gildi 1. janúar 2020.