Laugardaginn 11. júlí nk., mun fyrsta farþegaskip sumarsins koma til Reykjavíkur. Ekkert farþegaskip hefur komið frá því í byrjun mars til Faxaflóahafna. Skipið, Le Boreal, sem kemur um helgina er frá útgerðinni Ponant.  Þetta er leiðangursskip með í kringum 200 farþega. Farþegar koma með leiguflugvél frá París til Keflavíkur. Allir farþegar munu fara í skimun á Keflavíkurflugvelli. Farþegar verða síðan fluttir ca. 10-15 í hverri rútu niður á Miðbakka.  Allir farþegar þurfa sjálfir að passa uppá fjarlægðartakmörk og hafa andlitsgrímur. Þegar neikvæð niðurstaða er komin má fólk fara umborð í skipið, þ.e. þurfa að sýna SMS því til staðfestingar.  Ponant er með áætlaðar 6 skipakomur í júlí og verður fyrirkomulag alltaf það sama. Skipin sem koma frá þeim eru leiðangurskipin Le Boreal sem fjallað var um hér að ofan og síðan Le Bellot. Le Bellot er með ca. 100 farþega og er að koma til Íslands í fyrsta sinn.  Upphaflega áttu þessi skip að fara til Hafnarfjarðar en þar sem höfnin er ekki skilgreind sem sóttvarnarhöfn, þá voru skipakomur fluttar til Reykjavíkur.

Við komu þessara skipa verður farið að öllu leiti eftir fyrirmælum frá Landlækni og Almannavörnum, engar undantekningar eru gerðar.

Farþegaskipið Le Boreal.