Föstudaginn 28. maí síðastliðinn var Grænt bókhald Faxaflóahafna vegna ársins 2020 lagt fram á fundi stjórnar. Áhrif heimsfaraldursins setti mark sitt á rekstur Faxaflóahafna. Verulegur samdráttur var í fjölda skipa sem höfðu viðkomu í höfnum Faxaflóahafna. Alls fækkaði skipakomum um 27% milli ára.

Samkvæmt útblástursbókhaldi ársins losuðu skipin alls 42.700 tonn af CO2 og 31,4 tonn af SO2 á hafnarsvæðum Faxaflóahafna. Þetta er 24% samdráttur á losun CO2 og 73% samdráttur í losun SO2 sem er tilkominn vegna breyttra reglna um brennisteinsinnihald eldsneytis.

Úrgangur frá skipum, fluttur frá borði, nam alls 579m3 sem er umtalverður samdráttur miðað við 3.071m3 á árinu 2019.

Heildarlosun CO2 frá eigin rekstri Faxaflóahafna, samkvæmt Greenhouse Gas Protocol aðferðafræðinni, var 1.072 tonn og jókst um 3% milli ára. Losun vegna flugferða starfsfólks og ferða úr í vinnu minnkar milli ára. Losun frá eigin farartækjum eykst þó lítillega og losun frá bátum talsvert. Bátarnir nota um 87% af eldsneyti Faxaflóahafna. Á árinu 2020 var dráttargeta bátaflotans aukin verulega.

Kolefnisbinding fyrirtækisins í endurheimtu votlendi og skógrækt á eigin landi á Grundartanga nam hins vegar 855 tonnum og jókst um 4%. Þessi binding nemur 80% af heildarlosun Faxaflóahafna. Nettólosun ársins nam því 217 tonnum. Á árinu verður gripið til frekari mótvægisaðgerða svo að höfnin verði í reynd kolefnishlutlaus.

Alls voru seldar 4.051.246 kWst af rafmagni til skipa og var það um 10% samdráttur frá fyrra ári.

Kaup á köldu vatni drógust saman um 3% milli ára. Sala á vatni til skipa minnkað þó öllu meir eða um 59%. Sífellt er verið að bæta kerfin og draga úr sírennsli sem hefur verið óhjákvæmilegt vegna frosthættu á nokkrum bryggjum.

Veruleg aukning varð á endurvinnsluhlutfalli úrgangs frá eigin starfsemi og fór nú 86% úrgangs til endurvinnslu.

Áhugasamir geta smellt á myndina hér fyrir neðan til að nálgast Grænt bókhald fyrir árið 2020.