Árið 2018 ákváðu Faxaflóahafnir að festa kaup á nýjum dráttarbát á grundvelli þeirra breytinga sem orðið höfðu á skipakomum til hafna fyrirtækisins undanfarin ár, ásamt fyrirsjáanlegum breytingum á stærð skipa í framtíðinni. Talin var þörf á mun öflugri og stærri dráttarbát til þess að unnt væri að þjónusta stærri skip með öruggari hætti. Nýr dráttarbátur Faxaflóahafna, Magni, kom til Reykjavíkurhafnar 27. febrúar 2020 og var þar með öflugasti og fullkomnasti dráttarbátur landsins en kaupverð bátsins var tæplega 1.200 milljónir króna. Fljótlega eftir móttöku á bátnum í Reykjavík kom þó í ljós að ekki var allt með felldu varðandi virkni bátsins. Í ljós komu alvarlegir ágallar sem reynt var að vinna bót á af fulltrúum Damen, sem smíðaði bátinn, og sendir voru til Íslands. Sökum aðstæðna vegna heimsfaraldurs ásamt því hversu alvarlegir ágallar höfðu komið fram var tekin sú ákvörðun að sigla Magna til Hollands 9. júlí 2020, þar sem aðstæður voru taldar betri þar til þeirra viðgerða sem þörf var á. Hefur dráttarbáturinn verið þar í viðgerð síðan en Damen lánaði í staðinn dráttarbátinn Phoenix meðan viðgerð fór fram.

Eftir langt tímabil viðgerða í Rotterdam, lagði Magni af stað laugardaginn 15. maí frá Rotterdam til Reykjavíkur. Áætlaður komudagur er föstudagurinn 21. maí. Fimm manna áhöfn á vegum Damen siglir Magna heim en sama áhöfn á vegum Damen mun síðan sigla Phoenix til Rotterdam. Við afhendingu á Magna í Reykjavík mun byrja tveggja ára ábyrgðartímabil Damen á bátnum, þar sem fulltrúi fyrirtækisins munu koma nokkrum sinnum á ábyrgðartímabilinu til eftirlits auk þess sem olíusýni verða tekin og greind með reglubundnum hætti að forskrift Damen.

Í dag eru Faxaflóahafnir með í sinni þjónustu 4 dráttarbáta sem samtals eru með 145 tonna togkraft. Mikilvægt er að hafa öfluga dráttarbáta til taks þar sem stærð skipa mun aukast í framtíðinni. Dráttarbáturinn Magni og búnaður hans var valinn sérstaklega m.t.t. aukinnar stærðar skipa og aðstæðna við hafnir Faxaflóahafna.

Saga dráttarbátsins Magna hjá Faxaflóahöfnum spannar orðið níu áratugi. Sagan er einkar áhugaverð og má finna stutta samantekt frá Morgunblaðinu (frá árinu 2019), þar sem fjallað er um dráttarbátinn. Hægt er að lesa um það hér.

Áhugasamir geta fylgst með siglingu Magna til Íslands á Marine Traffic.

FaxaportsFaxaports linkedin