Farþegaskipið Norwegian Prima fékk höfðinglegar móttökur af starfsmönnum Faxaflóahafna þegar það sigldi í jómfrúarferð sinni inn Faxaflóann snemma morguns 25. ágúst. Viðburðurinn var festur á filmu og útkoman var glæsilegt myndskeið, sem við viljum með gleði deila með þeim sem áttu ekki kost á því að upplifa innsiglinguna með eigin augum.

Myndbandið má nálgast hér

Heimsóknin markaði að ákveðnu leiti stór tímamót varðandi þjónustu við farþegaskip, þar sem sama dag og skipinu var gefið nafn af „Guðmóður“ þess söngkonunni Katy Perry, þá fóru tæplega 3 þúsund farþegar um farþegaaðstöðu okkar á Skarfabakka. Sú farþegaaðstaða kemur til að mæta aukinni eftirspurn skipafélaganna á að láta fara fram farþegaskipti á Íslandi. Rúmlega helmingur þeirra farþegaskipa sem koma í hafnir Faxaflóahafna í ár munu hafa farþegaskipti hjá okkur.  Slík farþegaskipti fela í sér að farþegar eru annað hvort að stíga um borð eða fara frá borði hér á landi. Það hefur í för með sér auknar gistinætur á Íslandi, flug til og frá landinu ásamt annarri neyslu sem fylgir ferðamönnum. Samhliða leiða farþegaskipti til þess að skipin þurfa aukna þjónustu meðan þau eru í höfn, svo sem aukinn kost, olíu og aðra almenna þjónustu. Þetta eru góð tíðindi fyrir allt hagkerfið. Erlendar rannsóknir, sem hafa meðal annars verið framkvæmdar af Wonderful Copenhagen, sýna að slíkir ferðamenn eyða að jafnaði þrisvar sinnum meira í landi.

FaxaportsFaxaports linkedin