Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn í dag til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu, umboðsmönnum og öðrum hagaðilum, skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa. Hinn árlegi vorfundur Faxaflóahafna vegna vertíðar skemmtiferðaskipa á sér áratuga langa hefð og er fastur vorboði fyrir alla þá hagaðila sem koma að móttöku skemmtiferðaskipa á starfsvæði Faxaflóahafna. Húsfyllir var í aðalstöðvum Faxaflóahafna að Tryggvagötu 17 og ljóst að vilji hlutaðeigandi að láta þessa mikilvægu grein ferðaþjónustunnar ganga sem best er mikill.
Í sumar verður nokkuð þröngt um þjónustu við skipin við Skarfabakka þar sem bygging farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna á Skarfabakka stendur nú sem hæst. Áætlað er að hin nýja og glæsilega farþegamiðstöð verði tilbúin á vormánuðum 2026. Í ár er gert ráð fyrir rúmlega 300 þúsund farþegum sem eru örlítið færri farþegar en komu árið 2024. Áætlanir gera ráð fyrir að skiptifarþegar verði um 160 þúsund sem er fjölgun frá árinu áður þegar þeir voru 156.454.
Mikilvægi farþegamiðstöðvarinnar verður seint ofmetið, þótt óþægindi séu óhjákvæmileg á meðan á framkvæmdum stendur. Mikilvægi skiptifarþega fyrir ferðaþjónustu landsins er gríðarlegt þar sem þeir nýta sér flug annan ferðalegginn og kaupa sér gistingu og þjónustu. Samkvæmt tölum frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála frá 2023 gista 60% þeirra í að meðaltali 2,15 nætur í landi og nýta sér afþreyingu og aðra þjónustu í landinu á þeim tíma.
Allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi aðstöðu og þjónustu Faxaflóahafna í tengslum við komur skemmtiferðaskipa má nálgast hér: https://www.faxafloahafnir.is/adstada-og-frodleikur/