Ljósin á Hamborgartrénu verða tendruð kl. 17:00 laugardaginn 30. nóvember  en tréð er staðsett á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Það eru góðir vinir frá Hamborg sem senda jólatréð til Reykjavíkurhafnar. Þessi hefð hefur verið milli aðila allt frá árinu 1965.  

Við athöfnina munu fulltrúar frá Hamborg flytja stutt ávarp um leið og þeir afhenda gjöfina. Skúli Þór Helgason, formaður Faxaflóahafna sf., þakkar fyrir jólatréð fyrir hönd Faxaflóahafna. Dietrich Becker sendiherra Þýskalands á Íslandi, ávarpar gesti við tréð ásamt Dr. Sverrir Schopka, fulltrúa Þýsk-Íslenska félagsins í Þýskalandi. Að athöfn lokinni er gestum boðið í heitt súkkulaði og viðeigandi bakkelsi í Hafnarhúsinu, ásamt  því að jólasveinar munu kíkja í heimsókn.  Félagar úr Lúðrasveit Hafnarfjarðar leika jólalög.

Þessi fallegi siður, að senda jólatré til Reykjavíkurhafnar, er tileinkaður íslenskum togarasjómönnum sem sigldu á Hamborg með fisk strax eftir seinni heimstyrjöldina.  Þess er sérstaklega minnst að sjómennirnir gáfu svöngu og ráðlausu fólki á hafnarsvæðinu fiskisúpu á meðan verið var að landa úr togaranum.

Á hverju ári síðan árið 1965 hefur Eimskipafélag Íslands flutt tréð endurgjaldslaust til Reykjavikur og í ár eru það Íslandsvinafélögin í Hamborg og Köln sem styrkja þetta framtak.

Allar myndir sem teknar eru af viðburð verða settar inn á heimasíðu og Facebook síðu fyrirtækisins.


FaxaportsFaxaports linkedin