Undanfarin ár hafa Faxaflóahafnir sf. sett upp veglega ljósmyndasýningu á steyptum stöplum við Miðbakka. Sýningin opnaði laugardaginn 6. júní í 2020 og stendur fram að hausti. 

Við hjá Faxaflóahöfnum sf. hvetjum alla sem eiga leið framhjá höfninni í Reykjavík að skoða þessa stórfenglegu sýningu.

Sýningin í ár ber heitið:

SJÓSLYS VIÐ íSLAND 1870-2020

Verkefnið sjóslys við Ísland sýnir öll skip yfir 12 tonn sem farist hafa við Ísland frá 1870. Upphaf verkefnisins má rekja til uppsetningar á sýningu við Miðbakka fyrst árið 2013 og 2016 og nú í endubættri útgáfu 2020 í tilefni sjómannadagsins.  Sýnt er á kortum og með ljósmyndum hvernig þróun skipsskaða hefur verið við Íslandsstrendur allt frá árinu 1870. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þau fjölmörgu skip sem farist hafa og strandað við Ísland og allar þær fórnir sem þeim hafa fylgt í töpuðum mannslífum. Sýningin er gerð í tengslum við Hátíð hafsins og Sjómannadaginn – en sýningin stendur fram á haust á Miðbakkanum í Reykjavík.  Efnið sem tekið hefur verið saman á myndrænan hátt er afar fróðlegt og snertir bæði íslendinga og erlenda gesti okkar. Það eru þeir Agnar Jónas Jónsson, skipasmiður, Guðjón Ingi Hauksson sagnfræðingur og Guðmundur Skúli Viðarsson, ljósmyndari og verkefnisstjóri sem hönnuðu sýninguna. Bakgrunnskortið hannaði Hans Hansen, landfræðingur hjá Fixlanda ehf, og Merking ehf sá um prentun.

Sýningin er hér um samantekt sjóslysa frá 1870 til ársins 2020 og þau kortlögð. Upplýsingar um sjóslys má finna í mörgum mismunandi heimildum en þeim hefur verið safnað saman hér útfærð á þar til gerðum kortum þannig að áhorfandinn fær góða yfirsýn á einum stað um þróun sjóslysa hér við land á þessum tímabilum. Á kortunum eru skip yfir 12 tonn skrásett sem hafa farist eða laskast svo að þau hafa ekki orðið sjófær aftur. Þessum tíma er skipt upp í um tíu ára tímabil með nokkrum undantekningum þegar kemur að seinna stríði. Þar er árafjöldinn styttri sem gert er til einföldunar og auðveldari skoðunar vegna fjölda skipanna á þessu tímabili. Á kortunum má sjá glögglega þau svæði sem sjóslys hafa verið hvað tíðust hafa breyst með tímanum. Á fyrstu árunum um og eftir 1870 farast hér mikið af frönskum skútum sérstaklega á svæðinu í kringum Lón en þessar skútur sóttu mikið á miðin við suður- og suðausturland. Upp úr 1900 fjölgar togurum frá Bretlandi og Þýskalandi við landið og stranda þeir og farast í stórum stíl við suðurströndina, þá mest við Meðalland. Í framhaldinu færist aðal sjóslysasvæðið vestur að Reykjanesi, sérstaklega þá á vestanverðum skaganum.  Meiri dreifing er á sjóslysum hvað varðar íslensku skipin í kringum landið. Kortið um heimsstyrjöldina síðari sker sig nokkuð úr, en á þeim árum farast flestir og þá mest í stríðsátökum og af afleiðingum þess. Einstök óveður hafa tekið sinn toll og má nefna óveðrið 6. mars 1873 við Lón, þar sem 14 franskar skútur farast með fjölda manna, einnig óveðrið 11. september 1884 þar sem 22 norskar síldarskútur farast við Hrísey.

Við öflun efnis var stuðst við bestu fáanlegu sagnfræðilegu heimildir, þó eru heimildir frá því fyrir 1900 oft óáreiðanlegar og misvísandi, en höfundar lögðu faglegt mat á þær upplýsingar sem til staðar voru og grundvölluðu sitt mat á þeim. Staðsetning skipa eru ákvarðaðar útfrá lýsingum um slysstað. Einhverju getur skeikað í þeirri staðsetningu en reynt var að staðsetja skipin eins nákvæmlega og mögulegt var útfrá staðháttarlýsingum. Það er von höfunda að með þessari sýningu sé virðingu og minningu við sjómannastéttina haldið á lofti en sjómenn hafa tekist á við hættur sem að þeim steðja í baráttu þeirra við óblíð náttúruöflin.

Nánari upplýsingar um ljósmyndasýninguna má finna inn á vefsíðu sýningarinnar: https://myndskopun.wixsite.com/icelandexhibit2020

Allar ábendingar um ljósmyndasýninguna eru vel þegnar í tölvupósti: midbakkisyning@gmail.com