Miðvikudaginn 30. apríl sl. var haldið reisugildi fyrir nýja farþegamiðstöð á Skarfabakka, í tilefni þess að síðasta þaksperran hefur verið sett upp. Framkvæmdir við farþegamiðstöðina hófust formlega með skóflustungu þann 22. mars 2024.  Með þessum mikilvæga áfanga má segja að framkvæmdir gangi vel og séu á áætlun þar sem stefnt er að verklokum í mars 2026.

Starfsmenn Faxaflóahafna, verktakar frá ÍAV, hönnuðir frá BROKKR studio og VSÓ ráðgjöf komu saman til að fagna þessum tímamótum og fóru skoðunarferð um bygginguna.

Þess má geta að reisugildi er haldið þegar síðustu þaksperrur húss eru komnar upp, og markar það lok burðarvirkjagerðar sem er mikilvægur áfangi í byggingarframkvæmdum. Þessi hefð hefur lengi verið við lýði á Íslandi og táknar þakklæti og virðingu fyrir því mikla starfi sem verktakar og hönnuðir leggja í slíkar byggingar.

Farþegamiðstöðin mun marka tímamót í þjónustu Faxaflóahafna við móttöku skemmtiferðaskipa og gjörbreyta aðstöðu fyrir viðskiptavini og starfsfólk.  Auk þess mun húsið nýtast undir viðburði yfir vetrartímann þegar engin starfsemi er vegna skemmtiferðaskipa.

FaxaportsFaxaports linkedin