Tekjur Faxaflóahafna á fyrstu þremur mánuðum ársins námu 1.235 m.kr., sem er 18% aukning frá sama tímabili á árinu 2024. Þessi aukning í tekjum hafnanna á fyrsta ársfjórðungi er jafnframt 12,5% umfram áætlun. Framlegð (EBITDA) á fyrsta ársfjórðungi nam 329 m.kr. og var 45% aukning miðað við sama tíma í fyrra.
Fjárfestingar á tímabilinu námu 533 m.kr. Helstu framkvæmdir tímabilsins eru ný farþegamiðstöð á Skarfabakka, lenging aðalhafnargarðs á Akranesi og endurbætur á Grundartanga.
„Fyrsti ársfjórðungur reynist jafnan vera sá veikasti í rekstri Faxaflóahafna,“ segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri. „Því er ánægjulegt að sjá svona sterka byrjun á árinu. Helstu ástæður tekjuaukans eru auknar tekjur á Grundartanga vegna nýrra samninga, ásamt vaxandi umfangi vöruflutninga þar og í Sundahöfn.“