Hátíð hafsins í Reykjavík verður nú haldin helgina 6. – 7. júní 2020 og verður hún með allra glæsilegasta móti. Að hátíðinni standa Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og Brim en þessir aðilar hafa gert samning um að standa veglega að baki hennar að þessu sinni. Hátíðin samanstendur af tveimur hátíðardögum,  þ.e. Hafnardeginum sem er á laugardeginum og Sjómannadeginum sem er á sunnudeginum. Hátíðin hefur verið haldin sem slík síðan árið 2002. Hátíð hafsins hefur náð að vaxa og dafna undanfarin ár og er nú orðin ein að stærri hátíðum Reykjavíkurborgar en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni í fyrrasumar.


Sigurður Garðarsson framkvæmdarstjóri Sjómannadagsráð, Ægir Páll Friðbertsson framkvæmdarstjóri Brims, Erna Kristjánsdóttir markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna og Dagmar Haraldsdóttir eigandi Concept Events undirrita samstarfssamning vegna Hátíðar hafsins 2020. Hátíðin í ár verður með glæsilegasta móti.

Til að annast Hátíð hafsins hafa bakhjarlar undirritað samning við viðburðafyrirtækið Concept Events en eigandi þess, Dagmar Haraldsdóttir, hefur séð um framkvæmd hennar frá árinu 2013. Hátíð hafsins er umhverfisvæn hátíð þar sem verndun sjávar og lífríki þess gegn plasti er eitt af þemum hátíðarinnar. Allt rusl er flokkað og aðilar á svæðinu hvattir til að nota umhverfisvænar vörur meðan á hátíðinni stendur. Þar að auki er leiksvæðið Bryggjusprell er hannað út frá því að endurnýta hluti sem notaðir eru á hafnarsvæðinu.

Bakhjarlar Hátíðar hafsins, þ.e. Sjómannadagsráð, Brim og Faxaflóahafnir yfirfara samning við Concept Events og undirrita. Spennandi samstarf framundan !

Dagmar Haraldsdóttir, framkæmdarstýra Hátíðar hafsins fagnar þessum samning sem mun óneitanlega gefa aukið svigrúm til að framkvæma og hanna enn betri hátíð. Hátíðarsvæðið nær frá Hörpu, um Gömlu höfnina, út á Grandagarð og að Brim. Útisvið á Grandagarði verður með skipulögðum uppákomum á laugardag og sunnudag og hjá Brim á sunnudag, Sjómannadaginn. Það verður að venju mikið um að vera báða dagana. Dagskrá mun verða sett inn síðan og auglýst inni á heimasíðu hátíðarinnar: www.hatidhafsins.is

FaxaportsFaxaports linkedin