Við hjá Faxaflóahöfnum höfum nýtt okkur nútímatækni til að aðstoða við að halda sjónum hreinum í höfnunum, með því að fjárfesta í DPOL fljótandi „ruslsugu“ frá fyrirtækinu EKKOPOL í Frakklandi. DPOL er fljótandi vatnsdæla sem myndar sterkan yfirborðsstraum sem sýgur til sín yfirborðsrusl, olíubrák og fljótandi grút, sem svo safnast í áfesta netapoka og ísogspylsur. Tækið sjálft vegur ekki nema 35 kg og gengur fyrir 220V rafmagni þannig að hægt er koma því auðveldlega fyrir á hvaða hafnarsvæði sem er með einföldum hætti. Þar getur hreinsitækið staðið vaktina alla daga ársins allan sólarhringinn og haldið sjónum hreinum.

„Við erum stöðugt að leita leiða til að halda höfninni hreinni. Ákveðin svæði hjá okkur eru þannig úr garði gerð að rusl og olía safnast frekar fyrir. Með þessum nýja búnaði erum við að prófa okkur áfram með lausnir til að hreinsa þessi svæði. Markmiðið er að meta virkni búnaðarins og ákveða hvort rétt sé að nýta hann á fleiri svæðum í framtíðinni. Í Suðurbugtinni er blómlegt mannlíf og við viljum tryggja að hreint og snyrtilegt hafnarsvæði sé hluti af upplifun þeirra sem heimsækja svæðið,“ segir Gyða Mjöll Ingólfsdóttir umhverfis- og gæðastjóri Faxaflóahafna.

FaxaportsFaxaports linkedin