Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna hafa verið veitt frá árinu 2007 og verða nú veitt í 13 skipti. Venjan hefur verið að veita verðlaunin fyrirtækjum sem starfa á hafnarsvæðunum og sýnt hafa fram á framsækni í umhverfismálum og verið til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi. Eftirfarandi aðilar hafa hlotið Fjörusteininn frá upphafi:


2007 Eimskipafélag Íslands
2008 Nathan og Olsen hf
2009 Egilsson ehf
2010 Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
2011 Lýsi hf
2012 Samskip hf
2013 Elding – hvalaskoðun ehf
2014 HB Grandi hf
2015 Íslenski Sjávarklasinn ehf
2016 Special Tours
2017 Landhelgisgæsla Íslands
2018 Hafið öndvegissetur


Á aðalfundi Faxaflóahafna sf. var að vanda veitt umhverfisviðurkenning.

Í ár hlýtur Hafrannsóknastofnun „Hafró“ fjörusteininn.

Heimahöfn rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar hefur verið við Gömlu höfnina í Reykjavík frá stofnun árið 1965. Upphaf hafrannsókna við Ísland má þó rekja til síðari hluta 19. aldar er Danir hófu sjórannsóknir við landið. Frá árinu 1978 hefur stofnunin árlega birt skýrslu um ástand nytjastofna og lagt fram tillögur um hámarksafla úr helstu nytjastofnum. Stofnunin er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna og gegnir auk þess ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna. Fyrirhugað er að á árinu 2019 flyti starfsemi Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfjörð.


Hafrannsóknastofnun á og rekur tvö sérútbúin rannsóknarskip, Árna Friðriksson ER 200 og Bjarna Sæmundsson ER 30. Skip Hafrannsóknarstofnunar hafa verið landtengd með rafmagni frá því að Reykjavíkhöfn, nú Faxaflóahafnir, hófu uppsetningu rafdreifikerfis við Gömlu höfnina. Skipin hafa sömuleiðis verið landtengd hitaveitu. Leiðangrar skipanna beinast meðal annars að margvíslegum vistfræðiathugunum, stofnmælingum, kortlagningu hafsbotnsins, fiskmerkingum og veiðarfærarannsóknum. Höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar voru frá upphafi í Gömlu höfninni en fluttust árið 2006 frá Faxaskála, þar sem tónlistarhúsið Harpa stendur nú, í Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4. Stofnunin hefur starfssöðvar út um allt land en stofnunin leigir húsnæði af Faxaflóahöfnum í Grandaskála, þar eru meðal annars geymd veiðarfæri og ýmissi þjónustu tengdri rannsóknaskipum stofnunarinnar og annarri rannsóknastarfsemi sinnt.

Fiskasýning Hafrannsóknastofnunar hefur verið fastur liður í Hátíð hafsins og meðal vinsælustu viðburða þar og glatt borgarbúa. Þar hefur mátt sjá fjölbreytta fiska og furðuskepnur, allt fá algengum nytjafiskum eins og þorsk og ýsu að sjaldséðari tegundum eins og svartdjöfli og bjúgtanni.

Skip stofnunarinnar hafa sett svip sinn á höfnina undanfarna áratugi, umgengi stofnunarinnar við hafnarsvæðið hefur verið til fyrirmyndar ásamt því að skip hennar hafa verið landtengd með rafmagni og hitaveitu svo árum skiptir. Flokkun sorps frá skipunum hefur einnig verið aukin til muna við innleiðingu Grænna skrefa sem snúast um að efla vistvænan rekstur stofnunarinnar.

Auk þess að vera viðurkenning á góðri frammistöðu í umhverfismálum er Fjörusteinninn jafnframt hugsaður sem hvatning fyrir þá sem hann hljóta til áframhaldandi góðra verka og er von Faxaflóahafna að þessi viðurkenning verði hvatning til Hafrannsóknarstofnunar um áframhaldandi starf á þessu mikilvæga sviði.

Kristín Soffía Jónsdóttir afhendir umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. til Hafrannsóknarstofnunar „Hafró“.

Frá vinstri: Sólmundur Már Jónsson, útgerðastjóri Hafrannsóknastofnunar „Hafró“,
Kristín Soffía Jónsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna sf., Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna sf. og Ásmundur B. Sveinsson skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni ER30.

Kristín Soffía Jónsdóttir afhendir umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. til Hafrannsóknarstofnunar „Hafró“.

Frá vinstri: Sólmundur Már Jónsson, útgerðastjóri Hafrannsóknastofnunar „Hafró“,
Kristín Soffía Jónsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna sf., Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna sf. og Ásmundur B. Sveinsson skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni ER30.

Kristín Soffía Jónsdóttir afhendir umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. til Hafrannsóknarstofnunar „Hafró“.

Frá vinstri: Sólmundur Már Jónsson, útgerðastjóri Hafrannsóknastofnunar „Hafró“,
Kristín Soffía Jónsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna sf., Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna sf. og Ásmundur B. Sveinsson skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni ER30.

Sólmundur Már Jónsson, útgerðastjóri Hafrannsóknastofnunar „Hafró“ heludr þakkarræðu ásamt Ásmundi B. Sveinssyni skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni ER30.