Í dag, 22. júní 2018, samþykkti hafnarstjórn viljayfirlýsingu um sölu Hafnarhússins milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna sf.  Markmið kaupanna eru að Hafnarhúsið verði til framtíðar miðstöð lista í Reykjavík. Í Hafnarhúsinu er nú þegar Listasafn Reykjavíkur og unnið er að stofnun listaverkasafns Nínu Tryggvadóttur sem Hafnarhúsinu er ætlað að hýsa. Þá á Reykjavíkurborg stórt safn listaverka eftir ERRÓ og fengi það listaverkasafn með kaupunum sýningarrými við hæfi í Hafnarhúsinu.

Sala Faxaflóahafna sf. á eignarhluta félagsins í Hafnarhúsinu til Reykjavíkurborgar er byggð á þeirri forsendu að félagið selji einnig fasteign í eigu þess að Fiskislóð 12, og byggi nýja aðstöðu á fyrirhugaðri landfyllingu við Klettagarða, sem hýst geti starfsemina í Reykjavík á einum stað. Þar verði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir skipaþjónustu, bækistöð og skrifstofu félagsins auk aðstöðu fyrir lóðs- og dráttarbáta félagsins.

Hafnarhúsið var af stórhug og myndarskap reist á árunum 1932 – 1939 af Reykjavíkurhöfn sem vöruhús og starfsstöð Reykjavíkurhafnar, síðar Faxaflóahafna sf. Húsið var byggt samkvæmt teikningum Sigurðar Guðmundssonar, arkitekts og Þórarins Kristjánssonar, hafnarstjóra. Það var á sínum tíma stærsta húsið á Íslandi. Aðilar þessarar viljayfirlýsingar eru sammála um að framtíðarstarfsemi á sviði lista og menningar hæfi húsinu vel þegar starfsemi Faxaflóahafna sf. flyst annað.