grtmynd3

Faxaflóahafnir sf. eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á að vera leiðandi í umhverfismálum og vinna að stöðugum umbótum, m.a. með því að auka umhverfisvitund starfsmanna, viðskiptavina og þjónustuaðila sinna. Starfsemi fyrirtækja og einstaklinga á hafnarsvæðum Faxaflóahafna sf. veitir ákveðin réttindi, en þeim réttindum fylgja einnig skyldur, þar á meðal á sviði umhverfismála, sem mikilvægt er að virða.

Fyrirtækið á og rekur atvinnuhafnir og athafnasvæði og leggur áherslu á að skipulag og starfsemi samræmist skipulagsáætlunum eigenda og því umhverfi sem fyrirtækið starfar í.

Faxaflóahafnir hafa einsett sér að innleiða umhverfisstjórnun fyrir rekstur sinn með það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni. Í því felst að þekkja, vakta, fylgjast með þróun og stýra mikilvægum umhverfisþáttum í rekstri fyrirtækisins og kynna árangur og stöðu. Ennfremur hefur fyrirtækið einsett sér að fyrirbyggja sem kostur er umhverfisóhöpp og hafa tiltæka viðbragsáætlun til að draga úr hugsanlegum umhverfis­áhrifum af þeirra völdum.

Þættir sem Faxaflóahafnir leggja áherslu á eru:

Að fylgja lögum, reglugerðum og góðum starfsháttum í umhverfismálum  til hins ítrasta

·          Framfylgja lagalegum kröfum sem eiga við eigin starfsemi.

·          Fyrirtæki sem starfa á landsvæði Faxaflóahafna fylgi starfsleyfiskröfum sem þeim eru settar.

·          Viðskiptavinir Faxaflóahafna uppfylli lög og reglugerðir og þær kröfur sem Faxaflóahafnir gera í umhverfismálum.

Að efla umhverfisvitund og fræða

·          Fræða starfsmenn, viðskiptavini og nágranna Faxaflóahafna um verklag, kröfur og möguleika í umhverfismálum.

·          Hvetja, aðstoða og auðvelda viðskiptavinum, birgjum og öðrum þjónustuaðilum að fylgja umhverfisstefnu Faxaflóahafna.

Að ástunda ábyrga landnýtingu og að starfsemin sé í sátt við nálæga byggð

·          Taka tillit til umhverfismála við skipulagningu og þróun svæða í eigu Faxaflóahafna. Land við sjávarsíðu er takmörkuð auðlind.

·          Leggja áherslu á að gengið sé vel um umhverfi og starfssvæði Faxaflóahafna.

·          Opin svæði séu aðgengileg almenningi, umhirða þeirra sé til fyrirmyndar og að við rekstur þeirra sé beitt vistvænum aðferðum.

 

Að stuðla að vistvænum samgöngumáta og minni loftmengun frá samgöngum

·          Stuðla að minni landflutningum milli hafnarsvæða.

·          Bjóða upp á göngu og hjólaleiðir innan hafnarsvæða með góðri tengingu við göngu- og hjólaleiðir sveitarfélaga.

·          Beita sér fyrir góðum almenningssamgöngum inn á hafnarsvæðin.

·          Hvetja fyrirtæki og einstaklinga á hafnarsvæðinu sem reka skip og báta til að draga úr loftmengun í viðlegu og siglingum.

·          Nýta hagkvæm, umhverfisvæn og sparneytin ökutæki í eigin rekstri.

Að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs og frárennslis

·          Draga úr magni úrgangs, auka flokkun og endurvinnslu og tryggja rétt skil spilliefna.

·          Koma í veg fyrir að skólp og mengandi efni berist í hafnirnar.

·          Halda hafnarsvæðunum á sjó eins hreinum og mögulegt er með reglubundinni umhirðu.

Að tryggja umhverfisvöktun á hafnarsvæðum

·          Vakta vatnsgæði sjávar í höfnum með skilgreindri vöktunaráætlun ásamt vöktun á mengunarefnum í seti og jarðvegi.

·          Taka saman og birta upplýsingar um niðurstöður umhverfismælinga sem varða hafnarsvæðin.

Að draga úr óþarfa hávaða

·          Fylgjast með og kortleggja uppsprettu hávaða þar sem ástæða er til.

Að nýta auðlindir á ábyrgan hátt

·          Skilgreina vistvæn innkaup vöru og þjónustu fyrir starfsemina.

·          Hagkvæmni í orkunotkun.

·          Leggja áherslu á aukna raforkusölu til skipa.

·          Samræma verklagsreglur um afgreiðslu á köldu og heitu vatni og eftirlit með vatnsnotkun á öllum hafnarsvæðum.

·          Nýta dýpkunarefni og jarðveg frá framkvæmdum til landfyllinga.

 

   Samþykkt á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf.

                   þann 14. október 2011

      

Gísli Gíslason, hafnarstjóri

FaxaportsFaxaports linkedin