Ár 2020, miðvikudaginn 1. apríl kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar um fjarfundarbúnað og hófst fundurinn kl. 09:00.

Mætt:

Skúli Helgason, formaður
Örn Þórðarson
Ragnar B. Sæmundsson
Daníel Ottesen
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Magnús S. Snorrason

Varafulltrúi:

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Ólafur Adolfsson
Guðbjörg Erna Erlingsdóttir

Auk þess sátu fundinn: Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnarstjóri og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Ráðningarferli vegna starf hafnarstjóra.
Lögð fram drög að auglýsingu, skipan hæfnisnefndar og ráðningarferli.
Formaður lagði til að honum yrði falið að auglýsa starfið og að ráðningarferlinu verði fylgt eins og það liggur fyrir.

Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Faxaflóahafna gera athugasemdir við ráðningarferli nýs hafnarstjóra um að þar muni sitja í hæfisnefnd pólitískt kjörinn fulltrúi úr meirihluta borgarstjórnar. Mikilvægt er að ráðningin sé hafin yfir alla pólitíska tortryggni. Til þess að svo verði þarf ráðningin að vera fagleg og að henni komi utanaðkomandi óháðir sérfræðingar á sviði ráðningarmála.
Skynsamlegt hefði verið í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna heimsfaraldursins að auglýsingu og ráðningu um stöðu nýs hafnarstjóra hefði verið frestað tímabundið þar til dregið hefur verið úr mestu óvissunni vegna afleiðinga Covid 19 faraldursins og áhrifa hans á rekstur Faxaflóahafna.

Formaður lagði fram eftirfarandi bókun sem aðrir stjórnarmenn taka undir:
Stjórnin leggur áherslu á að standa eins vel og faglega að ráðningu nýs hafnarstjóra og kostur er og með þeirri tillögu sem samþykkt var á fundinum var komið til móts við sjónarmið stjórnarmanna um að mikilvægt væri að utanaðkomandi aðilar væru í meirihluta hæfnisnefndar. Á endanum er það hins vegar hlutverk stjórnar að ráða hafnarstjóra og því er það hér með ákveðið að stjórnin eigi einn fulltrúa í hæfnisnefndinni sem verði tengiliður við hafnarstjórn á öllum stigum í ráðningarferlinu.

ÖÞ, MG situr hjá við afgreiðslu málsins.

GT var ekki á fundinum þegar 1.tl. var til umfjöllunar.

2. Frestun gjalda.
Í ljósi aðstæðna og með vísan til samþykkta Alþingis og borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkir stjórn Faxaflóahafna eftirfarandi aðgerðir í því skyni að koma til móts við viðskiptavini fyrirtækisins:

a) Leigutakar húseigna hjá Faxaflóahöfnum geta óskað eftir frestun á greiðslu leigu allt að þremur greiðslum sem eru á gjalddaga í mars, apríl og maí 2020. Skilyrði fyrir frestun leigugreiðslna eru að sýnt sé fram á verulegt tekjutap miðað við sama tíma árið 2019. Við mat á tekjufalli verður miðað við a.m.k. þriðjungs samdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við árið 2019 samkvæmt staðfestu tekjuyfirliti.

b) Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum verður 15. janúar 2021.

c) Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir að farþegagjöld hvala- og náttúruskoðunarfyrirtækja með skip og báta undir 200 brt. verði tímabundið lækkuð um 75% frá 1. apríl til 30. júní og um 50% frá 1. júlí 2020 – 31.12.2020.

d) Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkir að lóðarleiga í Reykjavík og á Grundartanga verði frá og með 1. apríl til 31. desember eftirfarandi:
i. Álagning lóða í Reykjavík verði 2,0% af fasteignamati.
ii. Álagning lóða á Grundartanga verði 2,0% af fasteignamati.
iii. Lóðarleiga farmsvæða verður óbreytt 2,0% af fasteignamati.

e) Gjaldskrá dráttarbátsins Magna verði sú sama og fyrir dráttarbátinn Haka til 31.12.2020.

Samantekt:
• Leigugreiðslur leigjenda Faxaflóahafna eru um 27,0 mkr. á mánuði. Fjögurra mánaða greiðslufrestur hefur því áhrif á sjóðsstreymi ársins og gætu þannig – ef allir leigjendur hafnarinnar ættu rétt á frestun greiðslna – numið alls um 81,0 mkr. Tillagan byggir á samþykkt Reykjavíkurborgar og þeirri útfærslu sem þar mun gilda.
• Farþegagjald lækkar við breytinguna í 48 krónur í apríl, maí og júní en 95 krónur frá 1. júlí til áramóta úr 190 krónum á hvern farþega. Útlit er fyrir að farþegagjald vegna hafsækinnar ferðaþjónustu verði í ljósi aðstæðna óverulegt árið 2020, en samþykktinni er ætlað að koma til móts við smærri útgerðaraðila í hvalaskoðun, sjóstangaveiði og náttúruskoðun.
• Lækkun á lóðarleigu gæti numið um 20,0 mkr. í lægri lóðatekjum.
• Gert var ráð fyrir nýrri gjaldskrá fyrir Magna um mitt ár. Óbreyttri gjaldskrá verður haldið til áramóta.

Tillagan borin upp og samþykkt einróma.  Formaður lagði fram eftirfarandi bókun sem var samþykkt í stjórn.

Stjórn Faxaflóahafna leggur áherslu á að koma til móts við viðskiptavini sína í ljósi þess forsendubrests sem er að verða í atvinnulífinu vegna afleiðinga COVID faraldursins.  Stjórnin stendur einhuga á bak við þessar fyrstu aðgerðir um frestun og lækkun gjalda og verður áfram á vaktinni komandi vikur og mánuði ef þörf verður á frekari aðgerðum til að mæta þörfum viðskiptavina.

3. Önnur mál.
Rætt um tímasetningu aðalfundar.

Fleira ekki gert,
fundargerð lesin upp og staðfest í tölvupósti
og fundi slitið kl. 10:30