Ár 2022, föstudaginn 29. apríl kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og um fjarfundarbúnað og hófst fundurinn kl. 9:00

Mætt
Skúli Helgason, formaður
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Örn Þórðarson
Sabine Leskopf
Daníel Ottesen
Ragnar B. Sæmundsson
Lilja Björg Ágústsdóttir, varamaður
Valgerður Sigurðardóttir, varamaður

Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi
Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi

Auk þeirra voru, Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri, Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Magnús Þór Ásmundsson, sem ritaði fundargerð.

1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Ekki höfðu orðið alvarleg slys eða umhverfisatvik frá síðasta fundi. Atvik frá í nóvember var endurflokkað sem fjarveruslys. Færri meiðsli hafa orðið á fyrstu þremur mánuðum þessa árs (2 fyrstuhjálparatvik) en síðasta (2 fjarveruslys og 2 fyrstuhjálparatvik).
Tólf atvik og ábendingar hafa verið skráðar frá síðasta fundi og brugðist hefur verið við þeim. Meðal atvika var háskaleg sigling hvalskoðunarbáts sem tilkynnt var til Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

2. Áhættustefna og áhættumat Faxaflóahafna
Fyrirliggjandi uppfærð áhættustefna Faxaflóahafna var samþykkt með breytingu á lið 2.1 þar sem málsgreinin „Reynt að útiloka áhættu, t.d. með ákvörðunum um fjárfestingu.“ er felld niður. Efni hennar er talið innifalið í öðrum texta.
Tveimur nýjum liðum hefur verið bætt við uppfært áhættumat og einum lið var breytt;
Ófriður í Evrópu. Hefur þegar haft áhrif á aðföng í fjárfestingarverkefni og getur haft víðtækari áhrif á starfsemi.
Vinnumarkaðsáhætta. Meiri hreyfing er á starfsfólki á vinnumarkaði en áður og á það frekar við um yngri kynslóðir. Áhætta er fólgin í því að missa hæft fólk og að ná ekki að laða hæft fólk til fyrirtækisins.
Sviksemi og mistök. Þessum áhættuþætti var skipt upp í tvo, þ.e. sviksemisáhætta annars vegar og mistök hins vegar.
Uppfært áhættumat var samþykkt af stjórn.

3. Landtengingar og „Hröð orkuskipti í Reykjavík“
Sbr. bókun á 217. fundi stjórnar gerði fráfarandi hafnarstjóri grein fyrir stöðu þeirra verkefna er snúa að Faxaflóahöfnum í tillögum starfshóps um Hröð orkuskipti í Reykjavík. Tillögurnar snúa að:
Umhverfisívilnandi gjaldskrá. Útreikningur skv. EPI (gjaldskrá) fyrir farþegaskip verður prufukeyrður á árinu 2022 og stefnt er að upptöku slíkrar gjaldskrár fyrir 2023. FFH verða „pilot“ verkefni í EPI fyrir gámaskip á árinu og einnig er stefnt að upptöku 2023.
Framboð af landtengingum. Gamla höfn er landtengd og landtengingu fyrir varðskip o.fl. á Faxagarði verður lokið á árinu 2022. Landtenging gámaskipa á Sundabakka klárast haustið 2022. Landtengingar á Miðbakka og Akranesi eru á fjárfestingaráætlun 2023-2025. Landtengingar stærri farþegaskipa á Skarfabakka eru á áætlun fyrir 2026 en háðar aðgengi að afli. Öll verkefnin eru í gangi.
Samstarf um hönnun nýorkuskips. Hlutur FFH mun væntanlega verða að skapa aðstöðu og aðgengi að nýorku vegna orkuskipta á sjó.
Nýorkudrifinn bátastrætó. FFH hafa tekið þátt í þróunarverkefni um forhönnun ferju og gerði hafnarstjóri grein fyrir því. Umræða var í stjórn um að málið væri ásýndarmál og gæti snúið að fleiri þáttum t.d. nýorkudrifnum ferðaþjónustu/hvalskoðunarbátum.

4. Stafræn stefna
Hafnarstjóri kynnti stafræna stefnu sem fyrirtækið hefur unnið að með aðstoð ráðgjafa. Góð umræða og hvatning frá stjórn til að keyra á efni stefnunnar og að sýna framsýni í upplýsingatæknimálum. Umræða var um að leggja mat á fjárhagsleg áhrif stafrænnar innleiðingar og mun hafnarstjóri skoða það mál. Stefnan var samþykkt af stjórn.

5. Eigendastefna og sameignarfélagssamningur
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir kynnti. Efni nýrrar eigendastefnu og sameignarfélagssamnings hefur áður verið kynnt stjórn og eigendum. Umræða var um verklag við samþykkt stefnu og samnings og tilnefningar í stjórn skv. nýjum samningi. Skorrdælingar hafa haft athugasemdir við ferli málsins og voru þær athugasemdir og áhyggjur ræddar. Hafnarstjóra var falið að óska álits frá lögmanni FFH um lögmæti ferlisins.
Stjórn samþykkti eftirfarandi bókun:
„Hér er lögð fram ný eigendastefna og endurnýjaður stofnsamningur fyrir Faxaflóahafnir, sem unnin var af fulltrúum sameiginlegra eigenda Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar og tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu. Hér er verið að taka ákveðin skref til að aðlaga stefnumörkun, skipulag og stjórnarhætti Faxaflóahafna til nútímalegra og góðra stjórnarhátta. Þegar þau skref hafa sannað sig, er viðbúið að taka þurfi enn frekari skref í átt til stjórnarhátta atvinnufyrirtækja.“

6. Framkvæmdir og skipulag

i. Kostnaðaráætlun v. tímabundinnar farþega- og farangursaðstöðu á Skarfabakka
Sviðsstjóri Framkvæmdasviðs kynnti kostnaðaráætlun sem fer á rekstrarreikning á árinu. Stjórn samþykkti áætlun um útgjaldaauka 2022 vegna aðstöðunnar um 80,5 milljónir kr. Áætlun gerir ráð fyrir 59,5 milljón kr. tekjuauka vegna öryggisleitargjalds og aukinnar hafnargæslu. Að auki var vakin athygli á að eðlilegt væri að tekjur vegna farþegagjalda teldust sem stofn til slíkra framkvæmda (var þó ekki í ofangreindri áætlun).
ii. Samningur um Kleppslóð undir Löggarða
Fyrirliggjandi voru drög að lóðagjaldasamningi og lóðarleigusamningi milli FFH og Reykjavíkurborgar vegna Löggarða á Kleppslóð. Reykjavíkurborg mun framselja réttindi og skyldur samningsins til ríkisins. Lóðin verður afhent ójöfnuð. Lóðargjald var áætlað út frá gjaldskrá að frádregnum áætluðum kostnaði vegna jöfnunar lóðar. Samningarnir voru samþykktir af stjórn.
iii. Erindi Hringrásar um framlengingu á lóðarsamningi með breyttri notkun.
Erindið var lagt fram af hafnarstjóra til kynningar og umræðu. Aflað verður álits lögmanns FFH um meðferð samninga og forgangsréttarákvæði við sólarlag samninga og málið þá tekið fyrir að nýju til ákvörðunar.
iv. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi á Köllunarklettsvegi 2
Deiliskipulagsbreyting var kynnt af skipulagsfulltrúa. Breytingin var samþykkt af stjórn.
v. Staða fjárfestingarverkefna
Sviðsstjóri Framkvæmdasviðs kynnti stöðu og framvindu fjárfestingarverkefna. Innkaup á stálþili vegna framkvæmda í Akraneshöfn hafa verið í uppnámi vegna stríðsástands í Evrópu. Gengið hefur verið til samninga við þann tilboðsgjafa sem átti það tilboð sem tekið var. Verklagið hefur verið auglýst á TED og kærufrestur er til 9.maí.2022

7. Forkaupsréttarmál

i. Bókun um heimild hafnarstjóra til að falla frá forkaupsrétti.
Fyrirliggjandi var minnisblað lögmanns um verklag vegna forkaupsréttar og eftirfarandi tillaga að bókun:

„Hafnarstjóri, í samráði við formann stjórnar, tekur ákvörðun um hvort félagið falli frá forkaupsrétti án samráðs við stjórn. Stjórn skal upplýst um öll tilvik þar sem fallið er frá forkaupsrétti og um það bókað í fundargerð. Telji hafnarstjóri eða formaður stjórnar að félagið eigi að beita forkaupsrétti sínum í einhverju tilviki skal tillaga þar að lútandi borin undir stjórn félagsins á stjórnarfundi. Náist ekki að afgreiða málið á reglulegum stjórnarfundi innan þess 15 daga frests sem félagið hefur skv. lögum til að taka afstöðu til beitingar forkaupsréttar skal boðað til sérstaks stjórnarfundar til afgreiðslu málsins.“

Bókunin var samþykkt af stjórn.

ii. Erindi Löðurs ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Fiskislóð 29, Reykjavík. Fasta nr. 230-5463. Kaupandi Kaldalón hf.
iii. Erindi Fiskitanga ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Fiskislóð 14, Reykjavík. Fasta nr. 223-5386. Kaupandi Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.
iv. Erindi Allrahanda GL ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Klettagörðum 4, Reykjavík. Fasta nr. 232-4295. Kaupandi Festi fasteignir ehf.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi

8. Tímasett áætlun ábendingarlista
Í samræmi við bókun á 217. fundi hafnarstjórnar undir liðnum Ársreikningur 2021, lagði hafnarstjóri fram tímasetta áætlun um úrvinnslu ábendingarlista endurskoðenda.

9. Umhverfisskýrsla Sundahafnar – Álit Skipulagsstofnunar
Sviðsstjóri Framkvæmdasviðs kynnti helstu atriði í áliti Skipulagsstofnunar. Álitið setur ekki frekari skorður á þær framkvæmdir sem voru til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum.

10. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.

11. Önnur mál
Fundurinn var síðasti stjórnarfundur fráfarandi hafnarstjóra og voru honum þökkuð góð störf og óskað velfarnaðar.

Fundi slitið kl. 11:05.

FaxaportsFaxaports linkedin