fbpx

Ár 2022, föstudaginn 20. maí kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 9:00

Mætt:
Skúli Helgason, formaður
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Örn Þórðarson
Marta Guðjónsdóttir (vék af fundi undir 5. lið)
Sabine Leskopf
Daníel Ottesen
Magnús S. Snorrason
Ragnar B. Sæmundsson

Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi
Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi

Auk þeirra voru á fundinum Inga Rut Hjaltadóttir sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Gunnar Tryggvason starfandi hafnarstjóri sem ritaði fundargerð. Ólafur Melsted, skipulagsfulltrúi sat undir liðum 5 og 6 og Magnús Baldursson lögmaður undir liðum 5, 6, og 7.

1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Ekkert fjarveruslys hefur orðið frá 29.11.2021 og ekkert skyndihjálparslys frá 02. 03.2022. Tíu ábendingar bárust í aprílmánuði samanborið við átta árið áður. Mengunarský myndaðist í flæðigryfju á Grundartanga við losun efna frá Norðuráli. Tjón var á fenderum og lunningu á Magna vegna nudds við skemmtiferðaskip.

2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.

3. Rekstraryfirlit 1. Ársfjórðungs
Starfandi hafnarstjóri kynnti rekstraryfirlit fyrsta ársfjórðungs. Tekjur eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir og kostnaður lítið eitt lægri. EBITDA tímabilsins nemur 379 m.kr. sem er 38,5% yfir áætlun.

4. Útstreymisbókhald og Grænt bókhald
Starfandi hafnarstjóri kynnti útstreymisbókhald hafna Faxaflóahafna og Grænt bókhald fyrirtækisins fyrir 2021. Heildarlosun skipa sem í höfnum Faxaflóahafna lækkaði um 7.800 tonn frá árinu áður og nettólosun frá starfsemi Faxaflóahafna nam 157 tonnum og lækkaði á milli ára. Vísbendingar eru hins vegar um að aukin umsvif á þessu ári togi þróunina í hina áttina. Rætt var um leiðir til að bregðast við þeirri þróun.

5. Klettagarðar 9 – staða máls
Starfandi hafnarstjóri og Magnús Baldursson lögmaður kynntu minnisblað um stöðu lóðarinnar Klettagarðar 9. Leigutíma núverandi leigutaka líkur þann 31.12.2023 og ákvörðun um framhald þarf að vera tekin fyrir næstu áramót.

Hafnarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
„Stjórnendur Faxaflóahafna upplýsi leigutaka og framleigjanda að Klettagörðum 9 að núverandi starfsemi verði ekki heimiluð á lóðinni eftir að núverandi leiguafnotum lýkur þann 31. desember 2023. Leigutakar og aðrir þeir er spyrjast fyrir um lóðina skulu upplýstir um að ákvörðun um framtíðarnot lóðarinnar liggi ekki fyrir.“

6. Umsókn um lóð á Grundartanga
Lögð var fram umsókn Icegen ehf. um lóð undir gagnaver á Grundartanga. Hafnarstjórn samþykkti eftirfarandi bókun samhljóða:
„Samþykkt er að veita hafnarstjóra umboð til samninga við Icegen ehf., kt. 681218-0840, um úthlutun allt að 3.000 m2 lóðar á skilgreindu athafnasvæði á Grundartanga undir þann rekstur sem upplýst er um í umsókn viðkomandi“.

7. Forkaupsréttarmál
Lagt var fram erindi Eimskips Ísland ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á fasteigninni að Korngörðum 2, Reykjavík. Fastanr. 201-5890. Kaupandi er DCP ehf.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.

8. Önnur mál
Engin önnur mál voru tekin fyrir.

Fundi slitið 11:10.

Faxaports Faxaports linkedin