img_8799Það er að sjálfsögðu skylda að geta þess sem vel er gert!! Í skýrslu sem hún Bergþóra Bergsdóttir vann um atvinnulíf í Gömlu höfninni eru fasteignaeigendur og lóðahafar spurðir um eitt og annað varðandi Faxaflóahafnir sf. og starfsfólk þess. Skemmst er frá því að segja að almennt viðhorf viðskiptavina okkar á Grandanum og reyndar út í Austurbugt er afar jákvætt. Sá vitnisburður kemur mér ekki á óvart – en það er afar ánægjulegt þegar fleiri sjá það en ég – og geta þess sérstaklega. Skýrsluna má sjá HÉR – og innihald hennar er um margt fróðlegt. Í viðaukum með skýrslunni eru ummæli viðskiptavina okkar og þar má m.a. sjá eftirfarandi: ,,Þakka þeim samstarfið, það er búið að vera mjög gott. Félagið stendur í þakkaskuld við Faxaflóahafnir og það eru engar neikvæðar athugasemdir héðan“ “Ég þakka þeim gott samstarf.” ,,Það er gott að vera hér og samstarfið við Faxaflóahafnir er gott.” Hef átt mjög góð samskipti við Faxaflóahafnir í gegnum tíðina.“ ,,Nei, treysti þeim til allra góðra verka.” ,,Er mjög ánægður.” ,,Það mætti koma þriðja krananum hingað. Faxaflóahafnir standa sig nokkuð vel. Það er allt að fara í rétta átt og svæðið að verða líflegra.“ ,,Mjög ánægður viðskiptavinur hafnarinnar, starfsmenn almennilegir og kurteisir og þeir tilbúnir að hjálpa manni. Hér að ofan eru sýnishorn af svörum viðskiptavina okkar – og sérstök ástæða til að óska starfsfólki til hamingju með svo jákvæðar umsagnir. Vissulega eru ekki allir alveg kátir – en það snýr fyrst og framst að hugmyndum þeirra um hvaða starfsemi eigi að vera á Grandanum – en það er einnig gagnlegt – og það er ekkert lögmál að allir eigi að vera sammála. Mikilvægt er hins vegar að hlusta á þau sjónarmið sem fram eru sett – og vinna úr því sem fengur er í. Sem sagt: Jákvætt viðmót viðskiptavina í garð starfsfólks Faxa gamla skiptir máli og ánægjulegt að það skili sér svona rækilega í skýrslunni um atvinnulíf Gömlu höfninni. Við erum víst öll á sama báti og best gengur þegar róið er í takt! Með bestu kveðju Gísli G.

FaxaportsFaxaports linkedin