Ár 2006, föstudaginn 23. júní kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar um borð í dráttarbátnum Magna og hófst fundurinn kl. 14:00.
Mættir: Árni Þór Sigurðsson,
Helgi Hjörvar,
Kjartan Magnússon,
Jóhannes Bárðarson,
Ásbjörn Sigurgeirsson,
Vilhjálmur Þ. Vihjálmsson.
Varafulltrúi: Magnús Guðmundsson,
Ólafur R. Jónsson.
Áheyrnarfulltrúar: Gunnar Ingvar Leifsson.
Auk þess sátur fundinn: Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð, Jón Þorvaldsson forstöðumaður tæknideildar, Vignir Albertsson, skipulagsfulltrúi og Auður M. Sigurðardóttir, fjármálastjóri.
 
 

1. Upplýsingar frá International Association of Cities and Ports þar sem m.a. kemur fram að Árni Þór Sigurðsson hefur verið kjörinn í stjórn samtakanna til næstu þriggja ára.

Lagt fram. Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með að Faxaflóahafnir sf.
eigi fulltrúa í stjórn samtakanna.

2. „Gamli“ Magni.

Lagt fram minnisblað hafnarstjóra um ástand bátsins. Hafnarstjórn samþykkir að fela hafnarstjóra að leggja fram mat á kostnaði við að mála bátinn að innan og snyrta hann. Einnig samþykkir hafnarstjórn að láta gera áætlun um kostnað við aðrar endurbætur og kanna hvort mögulegt sé að fá að samstarfsaðila að því verkefni.

3. Tillaga um styrki til Björgunarsveitarinnar Ársæls, Brákar og Björgunarfélags Akraness.

Hafnarstjórn samþykkir að veita Björgunarsveitinni Ársæli,
Björgunarfélagi Akraness og Björgunarsveitinni Brák styrk samtals
að fjárhæð 1200 þús. krónur, sem skipt verði milli félaganna í
samræmi við umræður á fundinum.

4. Önnur mál.

Hafnarstjóri lagði fram ársskýrslu Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2005.
Formaður færði stjórnarmönnum og starfsmönnum þakkir fyrir
samstarfið þar sem þetta er síðasti fundur þessarar hafnarstjórnar.
Af þessu tilefni færði hann starfsmönnum hafnarinnar plöntuna Kólf,
sem þarfnast mikillar nærfærni þó svo að hún sé afar harðger.
Formaður afhenti fulltrúa starfsmanna blómið til varðveislu og
umönnunar
Vilhjámur Þ. Vilhjálmsson færði hafnarstjórn bestu þakkir fyrir
frábært samstarf, en hann gengur nú úr hafnarstjórn eftir 16 ára setu.
Vilhjálmur færði síðan fráfarandi formanni bestu þakkir fyrir farsælt
starf og afhenti honum að skilnaði kveðjugjöf frá stjórninni.
Jóhannes Bárðarson færði stjórnarmönnum og starfsmönnum
fyrirtækisins þakkir fyrir farsælt og gott samstarf. Þá færði Kjartan
stjórnarmönnum þakkir fyrir gott samstarf og Magnús færði bestu
þakkir fyrir hönd Skagamanna. Helgi þakkaði samstafið og
samveruna og Ásbjörn þakkaði einnig fyrir samstarfið í
hafnarstjórn. Að lokum færði hafnarstjóri stjórnarmönnum bestu
þakkir og færði stjórninni kveðjur starfsmanna.
 
 

Fleira ekki gert,

FaxaportsFaxaports linkedin