Sem kunnugt er lét stjórn Faxaflóahafna sf. þrjá óháða sérfræðinga gera úttekt á ástandi umhverfismála á Grundartanga og leggja mat á þá umhverfisvöktun sem þar er.  Eftir umfjöllun stjórnarinnar á efni skýrslunnar var eftirfarandi fært til bókar á fundi stjórnarinnar í dag:  grundartangi_agust_2011

„Faxaflóahafnir sf. eru eigandi um 620 ha. landsvæðis á Grundartanga þar sem m.a. er rekin umfangsmikil iðnaðarstarfsemi. Járnblendiverksmiðja var þar reist árið 1978 og árið 1998 tók álver þar til starfa. Á síðustu árum hefur land á Grundartanga verið þróað í samræmi við viljayfirlýsingu eigenda Faxaflóahafna sf., um að taka á móti frekari atvinnustarfsemi. Þar hefur byggst upp ýmis konar þjónustu m.a. í tengslum við starfsemi stóriðjufyrirtækjanna. Landkostir á Grundartanga felast í góðri hafnaraðstöðu, öflugu afhendingarkerfi á rafmagni, landrými og nálægð og greiðum samgöngum við öflugan vinnumarkað. Fjarlægð frá þéttbýli er heppileg, en á móti kemur að í grennd við Grundartanga er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta, sem taka þarf tillit til. Á grundvelli umhverfisstefnu Faxaflóahafna sf. og í ljósi ákveðinnar tortryggni varðandi umhverfismælingar og umhverfisvöktun ákvað stjórn Faxaflóahafna sf. að láta vinna sjálfstæða og óháða úttekt á umhverfismálum á Grundartanga. Tilgangur þeirrar úttektar var að útbúa lista yfir þá umhverfisþætti sem tengjast iðnaði á Grundartanga, leggja mat á mengunarálag og nýta niðurstöðu úttektarinnar til að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu.   Niðurstöður skýrslunnar bera eftirfarandi með sér:
ü Kröfur sem gerðar eru til iðnfyrirtækjanna á Grundartanga eru sambærilegar og jafnvel strangari en kröfur sem gerðar eru til sambærilegrar starfsemi erlendis.
ü Umhverfisvöktun svæðisins gefur skýra mynd af mengun á svæðinu.
ü Umhverfismælingar eru hlutlausar og unnar af hæfum aðilum.
ü Þolmörkum á Grundartanga skv. starfsleyfum er náð varðandi styrk brennisteinstvíoxíðs, sem setur ákveðnar skorður varðandi framtíðar uppbyggingu.
ü Ástæða er til að fylgjast með nokkrum mengunarþáttum – einkum með framtíðaruppbyggingu í huga.
ü Bregðast þarf við þegar niðurstöður nýs dreifingarlíkans liggja fyrir.
ü Bæta þarf upplýsingar um ætlaða dreifingu á flúor, einkum við óhagstæð veðurskilyrði vegna grasbíta.
ü Stuðla þarf að auknu samráði þeirra sem koma að vöktun svæðisins með stofnun samráðsvettvangs.
 
Á grundvelli ofangreinds samþykkir stjórn Faxaflóahafna til eftirfarandi:
a)    Stjórn Faxaflóahafna sf. beinir því til eigenda fyrirtækisins að mótuð verði stefna um framtíðaruppbyggingu á Grundartanga þar sem m.a. verði gert ráð fyrir framleiðslustarfsemi og þjónustu sem taki mið af niðurstöðu úttektarskýrslunnar m.a. varðandi brennisteinstvíoxíð. Áfram verði gert ráð fyrir iðnfyrirtækjum á svæðinu. Þá verði rætt við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um skipulag svæðisins. Miðað verði við að framleiðsla og þjónusta fyrirtækjanna nýti græna orku og starfi samkvæmt umhverfismarkmiðum Faxaflóahafna sf.
b)   Þeirri ósk er komið á framfæri við Umhverfisstofnun að stofnunin komi á fót samráðsvettvangi og auknu samráði milli þeirra aðila sem vinna að umhverfisvöktun á svæðinu. Þá verði framsetning umhverfisupplýsinga enn bætt þannig að íbúar í nágrenni svæðisins hafi greiðan aðgang að grundvallarupplýsingum varðandi stöðu mála.
c)    Þeim tilmælum er beint til Umhverfisstofnunar og Norðuráls hf. að komið verði á upplýsingamiðlun til íbúa í grennd við Grundartanga svo að þeir geti brugðist við ef óhagstætt veðurfar er talið geta aukið líkur á að dreifing flúors verði umfram það sem þynningarsvæði og reiknilíkön gera ráð fyrir.
d)   Þeim tilmælum er beint til Umhverfisstofnunar, Elkem Island ehf. og Norðuráls hf. að skýrsla starfshópsins um úttekt á umhverfisáhrifum verði tekin til sérstakrar umfjöllunar á vettvangi þessara aðila og tillögur skýrsluhöfunda nýttar til þess að frekari sátt megi nást um umhverfismál á svæðinu.
e)    Faxaflóahafnir sf. lýsa sig reiðubúnar til að koma að þeim umhverfisverkefnum á Grundartanga, sem gætu orðið til þess að ná fram þeirri sátt í umhverfismálum á svæðinu, sem er íbúum, fyrirtækjum og framtíðaruppbyggingu nauðsynleg.“
FaxaportsFaxaports linkedin