Þann 1. janúar 2005 tók nýtt hafnarfyriræki, Faxaflóahafnir sf. til starfa. Fyrirtækið á og rekur fjórar hafnir, Reykjavíkurhöfn, Grundartangahöfn, Akraneshöfn og Borgarneshöfn. Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar.

 
Tilgangurinn með sameiningar hafnanna í eitt fyrirtæki er m.a. eftirfarandi:
1.      Að sameinað fyrirtæki verði stærra og öflugra í breyttu samkeppnisumhverfi.
2.      Að hagræðing verði í rekstri.
3.      Að skapa ný sóknarfæri í uppbyggingu þjónustu og atvinnurekstri á svæðinu.
4.      Að tryggja viðskiptaaðilum hafnarinnar góða og hagkvæma þjónustu á þeim hafnarsvæðum sem rekin verða af fyrirtæki.
 
Í tengslum við sameiningu hafnanna voru eftirfarandi markmið sett fram:
1.      Reykjavíkurhöfn yrði áfram fjölbreytt inn og útflutningshöfn en aukin áhersla verði lögð á komur farþegaskipa.
2.      Grundartangahöfn verði byggð upp sem inn- og útflutningshöfn en fyrirhuguð áform um gerð hafnar í Geldinganesi hafa verið lögð til hliðar.
3.      Akraneshöfn verði efld sem fiskihöfn.
4.      Borgarneshöfn þjóni smábátum og skemmtibátum í framtíðiðnni.
5.      Stuðlað verði að því að framkvæmdum verði hraðað við Sundabraut, en verkefnið felst í lagningu vegar með ströndinni frá Reykjavík að Hvalfirði og er hún mikilvæg forsenda fyrir samniýtingu hafnarsvæða í Reykjavík og á Grundartanga.
 


Reykjavíkurhöfn – Gamla höfnin: 

Gamla höfnin í Reykjavík var byggð upphaflega á árunum 1912 til 1917. Höfnin var allt til ársins 1968 alhliða fiski- og flutningahöfn og stærsta höfn landsins. Árið 1968 færðist vöruflutningur úr gömlu höfninni í svonefnda Sundahöfn. Gamla höfnin gengur nú í gegnum miklar breytingar og eru helstu breytingarnar eftirfarandi:
 
1.      Fiskstarfsemi hefur verið flutt úr austurhluta hafnarinnar í vesturhlutann.
2.      Í austurhluta hafnarinnar eru nú hafnar framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhús sem verður væntanlega tekið í notkun árið 2011.
3.      Á svæði þar sem um áratugi hafa verið reknir tveir slippar hefur nú verið skipulögð blönduð byggð. Vonir standa til að unnt verði að hefja byggingarframkvæmdir á svæðinu innan tveggja ára.
4.      Í tengslum við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss stendur til undirbúningur að landfyllingum og bakkagerð við nýja aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip.
 


Reykjavíkurhöfn – Sundahöfn:

Frá 1968 hefur Sundahöfn verið megin inn- og útflutningshöfn Íslands. Þar fara um 230.000 TEU. Unnið er að frekari landþróun og lengningu hafnarbakka. Á árinu 2006 var tekinn í notkun svonefndur Skarfabakki sem er 450 metra langur viðlegukantur ásamt 100.000 m2 baklandi. Gert er ráð fyrir að landþróun og bakkagerð ljúki á svæðinu innan 5 ára.
 
Til Reykjavíkurhafnar koma árlega um 80 skemmtiferðaskip með um 70.000 farþega. Ætlunin er að leggja aukna áherslu á komur skemmtiferðaskipa.
 


Grundartangahöfn:

Höfnin er upphaflega byggð sem iðnaðarhöfn fyrir kíslimálmverkmsiðju árið 1978. Árið 1998 var höfnin stækkuð vegna framkvæmda við byggingu álvers og árið 2006 var enn einn áfangi tekinn í notkun og er nú bakkalengd hafnarinnar 670 metrar. Dýpi við hafnarbakka er frá 10 – 14 metrar. Á Grundartanga eiga Faxaflóahafnir sf. 615 hektara lands sem verður framtíðar þróunarsvæði hafnarinnar.
 


Akraneshöfn:

Hafist var handa við bygginu hafnarinnar árið 1930 og hefur hún fyrst og fremst verið fiskihöfn en að auki hefur þar verið flutningur með sement, en á hafnarsvæðinu er Sementsverksmiðjan hf. sem tók til starfa árið 1958. Markmið Faxaflóahafna sf. er að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn.
 


Borgarneshöfn:

Lítil höfn á Vesturlandi sem notuð er fyrir smábáta. 
 
Faxaflóahafnir sf. eiga alls um 1.000 hektara lands. Í Gömlu höfninni eru um 70 hektarar sem leigður eru undir ýmis konar starfsemi og byggingar. Í Sundahöfn eru um 190 hektarar undir byggingar, land og farmstöðvar og á Grundartanga á höfnin um 615 hektara lands, þar af 473 sem bíða þróunar. Loks á höfnin 125 hektara á svonefndu Geldinganesi sem verðu skipulagt sem íbúðabyggð.
Faxaflóahafnir sf. annast almenna hafnarsþjónustu við skip og eiga m.a. fjóra dráttarbáta, þann stærsta með um 40 tonna togkrafti.
 
Tekjur Faxaflóahafna sf. eru um tveir milljarðar íslenskra króna og stærsti einstaki tekjuliðurinn vörugjöld af inn- og útflutningi. Að auki eru tekjur af leigu lands og fasteigna einnig stór tekjuliður.
 
Gísli Gíslason,
hafnarstjóri.
 
FaxaportsFaxaports linkedin