Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti ársreikning fyrirtækisins á fundi sínum í morgun og má sjá ársreikninginn og greinargerð hafnarstjóra hér: Faxaflóahafnir ársr. 2015_KPMG Greinargerð hafnarstjóra vegna ársreiknings 2015.  Gamla höfnin - skip
Afkoma Faxaflóahafna sf. árið 2015 var betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Tekjur voru alls 277,0 mkr. umfram áætlun, sem er um 9,3% en rekstrarútgjöld voru 67,1  mkr. undir áætluðum útgjöldum. Auknar tekjur skiluðu sér aðallega vegna aukins innflutnings en einnig einnig voru aflagjöld nokkru hærri en ráð var fyrir gert. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði varð því meiri en áætlað hafði verið eða sem nemur 619,4 mkr.
Vegna sölu á landi í Gufnesi, Geldinganesi og Eiðsvík til Reykjavíkurborgar varð hagnaður ársins talsvert hærri en ráðgert hafði verið, eða 964,0 mkr.
Þegar á heildina er litið er afkoma Faxaflóahafna sf. vel viðunandi og í aðalatriðum nokkru betri en sú fjárhagsáætlun sem lagt var upp með. Hér að neðan má sjá nokkrar kennitölur sem sýna að staða félagsins er góð, sem er mikilvægt, enda væntingar til staðar um úrlausn fjárfrekra verkefna á næstu árum í Sundahöfn, á Grundartanga og á Akranesi.
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur Faxaflóahafna sf. árið 2015 voru 3.168.044 þ.kr. sem er 5,8% hækkun reglulegra tekna á milli áranna 2014 og 2015. Hækknunin á milli ára (án söluhagnaðar eigna) nemur 172,8 mkr. Þetta árið reyndust allir tekjuliðir ársins yfir því sem áætlað var, nema skipagjöld sem voru nánast á áætlun.
Rekstrargjöld Faxaflóahafna sf. árið 2015 voru 2.548.694 þ.kr. og hækka að krónutölu á milli ára um 144,3 mkr. eða um 6,0%. Rekstrargjöld voru hins vegar 67,1 mkr. lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 2,6%.
Rekstur Faxaflóahafna sf. var vel viðunandi á árinu 2014. Tekjur voru yfir áætlun og rekstrargjöld innan þess ramma sem settur var. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er sterk og það vel í stakk búið til að glíma við fjárfrek verkefni á komandi árum, en hafa ber í huga að í gangi er stórt verkefni í Sundahöfn og framundan stór verkefni á Grundartanga og á Akranesi. Ásókn í lóðir á hafnarsvæðum fyrirtækisins hafa vaxið verulega og nú svo komið að nánast öllum lóðum hefur verið úthlutað í Gömlu höfninni og í Sundahöfn. Með hliðsjón af aukningu í flutningum er ljóst að horfa þarf til framtíðar við lóðagerð og lóðanýtingu og uppbyggingu á hafnarsvæða Faxaflóahafna sf. Sundahöfn er og verður áfram næstu áratugi megingátt í flutningum til og frá landinu og því er mikilvægt að hafnarsvæðið geti áfram um ókomna tíð verið jafn mikilvæg í efnahag og atvinnulífi höfuðborgarsvæðisins. Á öllum svæðum Faxaflóahafna sf. verða til störf sem tengjast starfsemi hafnanna og því mikilvægt að þar verði landsvæði til þrónar. Augljóst er að uppbygging hafna og hafnarsvæða hefur í för með sér áhrif á umhverfi. Það er hins vegar stefna Faxaflóahafna sf. að framkvæmdir og uppbygging gerist á þann hátt að umhverfisáhrif verði í lágmarki og horft verði til starfsemi sem geti lifað í sátt við umhverfið.
Á grundvelli þess ársreiknings sem nú er birtur fyrir árið 2015 er ljóst að Faxaflóahafnir sf. hafa slagkraft til þess að koma stórum verkefnum áfram hægt og bítandi á þeirri forsendu að styðja við þróun atvinnulífs, um leið og gætt er að nánasta umhverfi.

FaxaportsFaxaports linkedin