Árið 2017 voru Faxaflóahafnir sf. fyrstar hafna á Íslandi til að ná ISO 14001 alþjóðlegri vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfið sitt. Með vottuninni sýnir fyrirtækið ábyrgð á því að minnka umhverfisáhrif starfseminnar með því að nýta auðlindir skynsamlega, stuðla að minnkun á útblæstri og minnka umfang sorps en farga því á ábyrgan hátt. Með öguðum og markvissum vinnubrögðum hefur fyrirtækið náð að lágmarka áhrif á umhverfið að því leyti sem því verður við komið.

Í dag, 12. september 2020, náðu Faxaflóahafnir endurvottun á stjórnunarkerfinu. Vottunin kemur í framhaldi af úttekt sem framkvæmd var júlí síðastliðinn á umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins. Tilgangur úttektarinnar var að framkvæma viðhaldsúttekt og endurútgefa vottorð fyrir stjórnunarkerfið.

Með vottun frá úttektaraðila, BSI á Íslandi, geta Faxaflóahafnir staðfest að fyrirtækið uppfyllir þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfisstaðlinum ISO 14001:2015. Meðal krafna eru:

  • Verklagsreglur, vinnulýsingar og leiðbeiningar séu til staðar.
  • Ábyrgðarsvið og hlutverk starfsfólks sé skilgreint.
  • Lagalegar kröfur og aðrar kröfur séu uppfylltar.
  • Mælanleg markmið séu til staðar.
  • Forvarnir, áhættumöt og aðgerðaáætlanir liggi fyrir.
  • Reglulegar úttektir eru framkvæmdar á fyrirtækinu.

Það er stefna Faxaflóahafna að vera ávallt í farabroddi þegar kemur að umhverfismálefnum og unnið er að stöðugum úrbótum til að draga úr umhverfislegum áhrifum fyrirtækisins.

 

FaxaportsFaxaports linkedin