Alls hafa 103 ís­lensk­ar stofn­an­ir og fyr­ir­tæki, þ.m.t. Faxaflóahafnir sf., skuld­bundið sig til að setja sér mark­mið og grípa til aðgerða til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og mynd­un úr­gangs. Um er að ræða sam­starf Reykja­vík­ur­borg­ar og Festu, miðstöð um sam­fé­lags­ábyrgð fyr­ir­tækja, en ár­ang­ur verður met­inn reglu­lega og upp­lýs­ingu miðlað um stöðu mála.  Festa2015
Í byrjun desember næstkomandi mun 21. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fara fram í París (COP21). Þar verður Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC) samþykktur, með það að markmiði að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Fyrirtæki um allan heim hafa í vaxandi mæli tekið skýra afstöðu í umhverfismálum og er nærtækt að nefna áskorun fyrirtækja frá 130 löndum þar sem kallað er eftir metnaðarfullum markmiðum á fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu. Mikilvægt er að borgir og fyrirtæki taki frumkvæði. Fyrst um sinn verður aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi boðin þátttaka í verkefninu. Verkefnið er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin forsendum og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Þátttakendum mun einnig bjóðast fræðsla varðandi loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annarra fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri.
Faxaflóahafnir sf. hafa haldið grænt bókhald allt frá árinu 2006 og sett sér ákveðna umhverfisstefnu. Nú er unnið að umhverfis- og öryggisvottun fyrirtækisins og með þátttöku í áskorun til fyrirtækja um að ná árangri í losun gróðurhúsalofttegunda og minnkun úrgangs er ljós hver stefna og vilji fyrirtækisins er. Eins og vænta má er ekki við öðru að búast en starfsfólk fyrirtækisins nái árangri í þessu verkefni.

FaxaportsFaxaports linkedin