Þann 10. janúar síðastliðinn undirrituðu Faxaflóahafnir sf. yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu, ásamt 250 öðru fyrirtækjum í Háskóla Reykjavíkur. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari verkefnisins. Það eru Festa – Miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn sem standa að verkefninu í samstarfi við Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála, Markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safe travel.
Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu á einhvern hátt sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.
Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.
Áhersluþættirnir eru:
1. Að ganga vel um og virða náttúruna.
2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
3. Virða réttindi starfsfólks.
4. Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið
Faxaflóahafnir sf. eru þessa stundina að vinna hörðum höndum að því að öðlast ISO 14001 umhverfisvottun.  Umhverfisvottunin mun verða liður í umhverfisstefnu fyrirtækisins þar sem tilgangurinn er að minnka sem mest áhrif starfseminnar á umhverfið og náttúruna. Það er okkar von að fyrirtækið nái þessari vottun á þessu ári.  Það er því okkur sönn ánægja að taka þátt í verkefninu: Ábyrg ferðaþjónusta.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá undirskriftinni:
_Q5K2739 _Q5K3237 Abyrgd074

FaxaportsFaxaports linkedin