Á aðalfundi Faxaflóahafna sf. var að vanda veitt umhverfisviðurkenning til þess fyrirtækis sem þykir hafa sýnt gott fordæmi í umhverfismálum. Viðurkenningin nefnist „Fjörusteinninn“ og var nú veitt í 11 skipti. Að þessu sinni var viðurkenningin veitt Íslenska sjávarklasanum. Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. afhenti Þór Sigfússyni viðurkenninguna en í rökstuðningi viðurkenningarinnar segir m.a.:  Fjörusteinninn2015
„Fjörusteininn umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2015 hlýtur fyrirtækið Íslenski Sjávarklasinn, Grandagarði 16.
Íslenski sjávarklasinn ehf var formlega stofnaður árið 2011.  Fyrsti fundur klasans var haldinn í Sjóminjasafninu Víkinni í maí 2011 þar sem markmið klasans var tilgreint svo:
„   … að styrkja nýja sprota í geiranum og auka gróskuna í þessum stærsta klasa í íslensku efnahagslífi.“
Með tilkomu Íslenska sjávarklasans og síðar Húss sjávarklasans að Grandagarði 16 hefur þessi starfsemi vaxið hratt, en samningur milli sjávarklasans og Faxaflóahafna sf. um leigu í húsinu var undirritaður 26. september 2012. Fyrsti áfangi  hússins á Grandagarði 16 var opnaður í september 2012 og var sá hluti um 800 m2 að stærð. Síðan þá  hefur áhugi á nýsköpun í sjávarútvegi og greinum tengdum honum vaxið hratt og er nú svo komið að öll efri hæð og hluti neðri hæðar hússins er komin undir þessa starfsemi. Vísbending um það er fjöldi nýrra fyrirtækja sem sprottið hafa úr klasanum eins og t.d. fyrirtækið Codland. Önnur vísbending er fjölgun nýnema í haftengdu námi á Íslandi en ólíkt flestum öðrum ríkjum þá hefur Íslandi tekist að fjölga nýnemum í haftengdu námi á undanförnum 3 árum.
Íslenski sjávarklasinn hefur lagt áherslu á mikilvægi fullvinnslu og forystu Íslands í þeim efnum.  Ísland stendur sig mun betur en aðrar þjóðir í nýtingu afla. En þessu forystuhlutverki fylgir einnig sú ábyrgð að reyna ávallt að gera betur. Mikilvægur hluti af því er starfræksla Húss sjávarklasans á Grandagarði en þar hafa nú aðsetur um 50 fyrirtæki, sem mörg hver eru í margs konar nýsköpun í vinnslu og veiðitækni, þróun matvæla, heilsuefna og lyfja.
Íslenski sjávarklasinn og Hús sjávarklasans eru mikilvæg andlit íslenskrar atvinnustarfsemi sem tengist hafinu í  kringum Ísland. Íslenski sjávarklasinn hefur lagt kapp á að þess sjáist skýr merki að húsið og sú starfsemi sem þar fer fram sé til sóma. Hús sjávarklasans hefur sett sér þá stefnu að vera fyrirmyndarsamfélag sem leggur kapp á að virða sem best umhverfi sitt; stuðla að umhverfisbótum með því að endurnýta; endurvinna sem mest og nota vatn og rafmagn sparlega.
Hús sjávarklasans hefur þá stefnu að vera mannvænn vinnustaður þar sem ólíkir einstaklingar starfa saman og að þar sé skapað sé rými fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á því að hefja rekstur og tækifæri fyrir fólk sem þarfnast mögulega stuðnings til að komast á vinnumarkaðinn að nýju.
Íslenski sjávarklasinn er vel að því kominn að hljóta umhverfisviðurkenningu Faxaflóahafna sf. fyrir það brautryðjendastarf sem klasinn hefur unnið á undanförnum árum í íslenskum sjávarútvegi.“

FaxaportsFaxaports linkedin