fbpx

Í vikunni var landtenging gámaskipa í Sundahöfn formlega tekin í notkun, sem mun stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda og loftmengandi efna frá flutningsstarfsemi. Landtengingar rafmagns fyrir gámaskip er stórt og einstakt skref á evrópskan mælikvarða og um leið mikilvægur liður í átt að grænum höfnum, sem er ein af stefnuáherslum Faxaflóahafna.

Verk­efnið er sam­starfs­verk­efni Eim­skips, Faxaflóahafna, Veitna, Um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is­ins, Reykja­vík­ur­borg­ar, en skrifað var und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu um upp­bygg­ingu og rekst­ur land­teng­inga fyr­ir skip í Sunda­höfn í maí 2020. Norska fyrirtækið Blueday Technology AS hefur séð um hönnun og smíði á landtengingarbúnaði og verkfræðistofan Efla hafði umsjón með verkinu.

Landtengingin í Sundahöfn gerir það að verkum að nú er hægt að landtengja stærstu flutningsskip Eimskips við rafmagn þegar þau eru í Sundahöfn í stað þess að keyra ljósavélar sem ganga fyrir olíu. Ávinningurinn er minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda samhliða bættum loftgæðum og hljóðvist á svæðinu. Landtengingin kemur til með að minnka olíunotkun á hafnarsvæði um allt að 240 tonn á ári sem jafngildir útblæstri á um 750 tonnum af koltvísýringi (CO2).

Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að, „þessi tenging marki mikilvæg tímamót í sögu hafnarinnar.  Faxaflóahafnir hafa í áratugi byggt upp kerfi landtenginga fyrir minni skip og báta en nú sé komið að því að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur, þ.e. allra stærstu skipin.  Það verður krefjandi og kostnaðarsamt verkefni, en umhverfislegi ávinningurinn er þríþættur.  Í fyrsta lagi draga landteningar eins og þessi úr losun gróðurhúsalofttegunda, og í öðru lagi úr útblæstri loftmengandi efna s.s. nituroxíðs og sóts, en bætir jafnframt hljóðvist.“

FaxaportsFaxaports linkedin