Undanfarin ár hefur komum farþegaskipa til Faxaflóahafna farið fjölgandi. Samfara því hefur skapast nokkur umræða um umhverfisáhrif skipanna og þá loftmengun sem frá þeim berst. Faxaflóahafnir hafa um nokkurra ára skeið látið reikna áætlaðan útblástur allra skipa sem koma til Faxaflóahafna. Eins og þær niðurstöður leiða í ljós er um að ræða umtalsverða losun á mengandi efnum í útblæstri skipanna. Til þess að átta sig enn frekar á áhrifum þessa útblásturs á nærliggjandi umhverfi hafa Faxaflóahafnir sett upp loftgæðamæli á Laugarnesi.

Mælistöðin er af gerðinni Airpointer frá MLU Recordum sem er austurrískt fyrirtæki sem sérhæfir sig í samsetningu á loftgæðamælistöðvum og hafa lagt mikið upp úr því að allar mælistöðvar þeirra uppfylli tilskipanir Evrópusambandsins varðandi nákvæmni mælinga. Nú þegar eru nokkrar slíkar stöðvar í rekstri á Íslandi og hafa reynst vel.

Mælistöðin í Laugarnesi mælir eftirtalin gildi í andrúmslofti í míkrógrömmum á rúmmetra:
SO2, H2S, NO2 og auk þess magn svifryks með kornastærðina 10, 2,5 og 1 míkrómetra. Þar að auki er veðurstöð sem mælir vindhraða, vindátt, raka og loftþrýsting.

Allar þessar upplýsingar eru aðgengilegar, í rauntíma, á vef Umhverfistofnunar www.loftgaedi.is

Til þess að finna út heppilegustu staðsetningu mælistöðvarinnnar var Verkfræðistofan Vatnaskil  fengin til þess að gera loftdreifilíkan af dreifingu útblásturs farþegaskipa sem lægju við Skarfabakka. Við val á staðsetningu var horft til þess að styrkur mengunar frá skipunum væri sem hæstur og mælingin sem minnst trufluð af mengun frá aðliggjandi bílaumferð. Niðurstaða þess var að heppilegasta staðsetningin væri á Laugarnesi.

Ljósmyndari: Hermann G. Bridde

 

FaxaportsFaxaports linkedin