Fyrsta skemmtiferðaskipakoma ársins var 28. mars og nú þegar maí mánuður er að ljúka hafa verið skráðar 21 skemmtiferðaskipakomur til Reykjavíkur. Meðaltals umhverfiseinkunn af þeim skipakomum eru 38 stig, sem endurspeglar nýrri og umhverfisvænni skemmtiferðaskip.

Faxaflóahafnir tóku upp norskt umhverfiseinkunnarkerfi fyrir skemmtiferðaskip, Environmental Port Index (EPI), með ívilnun eða álögum eftir umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði.

EPI á upptök sín í Noregi þar sem höfnin í Björgvin, Det Norske Veritas (DNV), ásamt helstu skemmtiferðaskipahöfnum Noregs tóku sig saman og þróuðu nýtt umhverfiseinkunnarkerfi sem tekur sérstaklega á umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði. Faxaflóahafnir voru fyrstu hafnir utan Noregs sem tóku upp EPI einkunnarkerfið og tengdu það við sína gjaldskrá. Við innleiðingu var stuðst við fyrirkomulag hjá höfninni í Stavanger, en með vægari álögur þar sem Faxaflóahafnir eru ekki enn komnar með landtengingar fyrir stærri skemmtiferðaskip.

EPI er verkfæri sem gerir höfnum kleift að skilgreina umhverfisspor skemmtiferðaskipa á meðan viðkomu stendur. Markmiðið er að koma á fjárhagslegu hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari rekstrar skemmtiferðaskipa og draga þannig úr ávinningi við að koma til hafna Faxaflóahafna með mengandi skip.

FaxaportsFaxaports linkedin