Sjóferð um Sundin er skemmtileg og lærdómsrík sjóferð í boði Faxaflóahafna sf., fyrir nemendur 6. bekkjar á Faxaflóahafnasvæðinu. Við skipulagningu á þessari sívinsælu sjóferð hefur fyrirtækið fengið sér til liðs tvo aðila, Fjölskyldu og Húsdýragarðinn og Sérferðir (Special Tours). Verkefnið fer þannig fram að Fjölskyldu og Húsdýragarðurinn sendir auglýsingar um verkefnið í grunnskóla á Faxaflóahafnasvæðinu og sér um að skrá þátttöku skólanna. Þar að auki sér Fjölskyldu og Húsdýragarðurinn um að útvega leiðbeinendur í sjóferðirnar með nemendum og annast gerð námsgagna. Sérferðir (Special tours) leggur síðan fram skipakosti fyrir ferðina.
Þar sem Faxaflóahafnir sf. fagna því að í ár eru liðin 100 ár frá því að Gamla höfnin í Reykjavík var tekin formlega í notkun, þá var farið út í þá vinnu að uppfæra það námsefni sem til var fyrir þátttakendur í námskeiðinu. Nú er að finna tvo nýja kafla sem ekki voru áður í bókinni, þ.e.:

  • Kafla 2.  Sundin – ágrip af landafræði og sögu
  • Kafla 3. Faxaflóahafnir.

Aðrir kaflar í námsefninu hafa verið uppfærðir í samræmi við núverandi aðstæður.
Stutt ágrip frá hafnarstjóra Faxaflóahafna og umsjónamanni námskeiðsins
Það er Faxaflóahöfnum sf. mikil ánægja að fá tækifæri til að fræða börn um hafnir og lífríki sjávar. Hafnir, skip og fiskur hafa lengi verið aðdráttarafl fyrir unga sem aldna og svo mun eflaust verða lengi enn. Nú eru 100 ár liðin frá því að Gamla höfnin í Reykjavík var formlega tekin í notkun og fögnum við þeim tímamótum en minnumst um leið þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á liðnum áratugum á hafnarsvæði Faxaflóahafna.  Hafnir, skip og lífríki hafsins skipta okkur ekki síður máli nú en á árum áður.
Það er því hollt og nauðsynlegt að veita ungu og áhugasömu fólki innsýn í þessa ævintýraveröld og í framtíðinni munu þau takast á við verkefni tengdum höfnum, lífríki sjávar, flutningum og sjómennsku. Vonandi njóta allir þeirrar fræðslu sem í boði er og hafi gagn af.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri
 
Námskeiðið Sjóferð um sundin hefur nú staðið grunnskólanemum til boða í nær tvo áratugi. Á þessu tímabili hafa á þriðja tug þúsunda nemenda á miðstigi grunnskóla tekið þátt í námskeiðinu. Síðastliðin tíu ár hefur námskeiðið verið samstarfsverkefni Faxaflóahafna sf. og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Námskeiðið byggist á stuttri sjóferð þar sem nemendur eru fræddir um helstu þætti tengda sjónum eins og hafnir, skip, eyjar og lífríki sem og það sem fyrir augu ber hverju sinni. Við vonum að nemendur sem og kennarar muni hér eftir sem hingað til hafa gagn og gaman af fræðslunni sem fer fram í námskeiðinu sem og sjóferðinni um sundin blá.
Þorkell Heiðarson, umsjónarmaður
Með því að smella á myndina hér að neðan, þá getið þið skoðað nýja námsefnið.
Njótið og gleðilega páska !
Capture

FaxaportsFaxaports linkedin