Reykjavíkurhöfn var með mesta aflaverðmæti landað í íslenskum höfnum á árinu 2020, skv. gögnum á vef Hagstofunnar fyrir árið 2020. Verðmæti aflans voru rúmlega 17 milljarðar íslenskra króna.  Aflamagnið var 62,435 tonn sem skipar höfninni  fimmta sæti yfir mesta aflamagn allra hafna landsins.

Höfnin í Reykjavík er eina höfuðborgarhöfnin í Evrópu sem er með virka fiskútgerð, fiskmóttöku og fiskvinnslu. Allt árið í kring er Gamla höfnin notuð fyrir löndun á sjávarafla, hafsækna ferðaþjónustu, skipaviðgerðir og sem olíubirgðarstöð. Í Norðurbugt eru flotbryggjur fyrir trillubáta. Í Vesturhöfn eru verbúðir og viðlegukantar fyrir smærri báta og togara. Á hafnarsvæðinu má síðan finna Fiskmarkað Íslands sem tryggir að útgerðir geti selt veiddan fisk og að vinnsluaðilar fái fisk til vinnslu, á öruggan og hagkvæman hátt. Fiskmarkaðurinn tengir seljendur við breiðan hóp kaupenda sem er með ólíkar þarfir og auðveldar þeim að losna við allar tegundir fisks. Víðtæka þekkingu og reynslu á framleiðslu sjávarafurða má finna hjá sjávarútvegsfyrirtækjum á hafnarsvæðinu.

Ljósmynd: Gunnar Ingvar Leifsson

Ljósmynd: Gunnar Ingvar Leifsson