Í byrjun janúar 2021 voru 198 skipakomur farþegaskipa bókaðar til Faxaflóahafna með um 217 þús. farþega. Bókunarstaðan þá byggði á væntingum skipafélaganna og mun tíminn þurfa að leiða í ljós, líkt og í fyrra hverjar rauntölur verða.

Staðan í dag, 21. júní, er sú að áætlaðar eru 92 skipakomur með 60 þús. farþega til Faxaflóahafna. Skipakomur byggja enn á væntingum farþegaskipanna og getur enn margt breyst fram að hausti. Rauntölur ársins 2020 voru allt aðrar en áætlaðar tölur, það ár voru 7 skipakomur farþegaskipa með 1.346 farþega. Því hvetjum við alla til að fylgjast vel með farþegaskipadagatali Faxaflóahafna á heimasíðu fyrirtækisins.

Von er á fyrsta farþegaskipinu fimmtudaginn 24. júní, en það er Viking Sky sem er að koma og hefur viðdvöl til 27. júní í höfuðborginni. Skipið getur tekið 930 farþega en í fyrstu ferðinni eru bókaðir í kringum 400 farþegar. Þegar líða tekur á sumarið, þá mun bókuðum farþegum fjölga í skipinu. Viking Sky siglir án farþega til landsins. Farþegarnir munu koma bólusettir til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. Farþegum er skylt að fylgja eftir þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi. Farið verður að öllu leiti eftir fyrirmælum frá Landlækni og Almannavörnum, engar undantekningar eru gerðar. Í júlí mánuði fer skipaumferð farþegaskipa að aukast jafnt og þétt, ef allt gengur eftir.

Í ár munu við sjá að mestu lítil og miðlungs farþegaskip. Hverfandi líkur er á því að stór skemmtiferðaskip muni koma til landsins. Það eru enn bókaðar nokkar þannig skipakomur, en byggt á reynslu fyrra árs þá munu stóru skipin af öllum líkindum afbóka eftir því sem nær dregur. Aðeins tíminn mun leiða það í ljós. Þess vegna hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með farþegaskipadagatali Faxaflóahafna á heimasíðu fyrirtækisins.

Meðal jákvæðra breytinga sem Faxaflóahafnir sjá á þessu ári er að fyrirtækið mun í fyrsta skipti taka á móti farþegaskipi sem knúið er með náttúrulegu gasi (LNG). Þó nokkur skip munu vera að koma í fyrsta sinn til Faxaflóahafna. Einnig á fyrirtækið von á fleiri skipakomum til Akraness en áður. Að svo stöddu eru fimm skipakomur bókaðar til Akraness í sumar, sú fyrsta 9. júlí og síðasta 29. september.

Bókunarstaða fyrir árið 2022 er mjög góð og lítur út fyrir að það ár verði metár hvaða varðar skipakomur og farþegafjölda ef allt gengur eftir.

Á morgun þriðjudag, 22. júní, er upplýsingafundur með hagsmunaaðilum sem koma að farþegaskipum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Facebooksíðu Faxaflóahafna kl. 13:00.

Hægt er að finna frekari fróðleik um farþegaskip hér.

Ljósmynd: Gunnar Ingvar Leifsson