Starfshópur um landtengingar skipa í höfnum Faxaflóahafna hefur nú skilað af sér skýrslu og tillögum um hvernig standa megi bættum loftgæðum og samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda á starfsvæðum hafnanna. Leggur hópurinn til að ráðist verði í annan áfanga landtenginga sem felur í sér háspennutengingar flutningaskipa í Sundahöfn strax á þessu ári en jafnframt haldið áfram undirbúningi þess þriðja og kostnaðarmesta þ.e.a.s. tenginga skemmtiferðaskipa.  Landtengingar smærri skipa og báta á neysluspennu, sem vísað er til sem fyrsti áfangi þessa langtímaverkefnis er langt á veg komin og gengur rekstur þeirra vel.  Gunnar Tryggvason formaður hópsins og aðstoðarhafnastjóri Faxaflóahafna segir að í heild geti kostnaður þessara verkefna numið á fimmta milljarð króna og fallið til á fimm árum.  Þegar öllum þremur áföngum er lokið á það að heyra til undantekninga að skip við hafnarkant Faxaflóahafna brenni jarðefnaeldsneyti í lengri tíma.  Ásamt Faxaflóahöfnum áttu Veitur og Reykjavíkurborg fulltrúa í starfshópnum.

Nálgast má skýrsluna með því að smella á myndina hér fyrir neðan.