IMG_0441Það var gott að hitta Jay og Natasha í vigtarhúsinu í Gömlu höfninni í Reykjavík. Einstaklega elskulegt fólk, ekki svo ýkja há í loftinu en samt svo stór. Þau ferðast um heiminn á lítilli seglskútu, með 3 börn og það fjórða á leiðinni, og ætla að hafa vetursetu í Reykjavík.
„Þetta byrjaði fyrir níu árum þegar við hittumst í Costa Rica,“ segir Natasha, „og það var ást við fyrstu sýn.“ Við ákváðum að skoða heiminn á okkar eigin forsendum og þannig byrjaði ævintýrið sem hefur staðið yfir samfleytt í níu ár. Við eignuðumst skútu í San Diego, Kaliforníu, sem Jay gerði upp, en hann er einstaklega mikill smiður og alltmuligmann. Eftir að hafa siglt um á henni með dætur okkar, Sol og Luna, fórum við yfir á austurströndina og Jay hófst handa við að gera upp aðra seglskútu og það er báturinn sem við erum á núna. Af hverju Ísland? Von að þú spyrjir, en við kynntumst manni frá Íslandi sem var matsveinn á snekkju við austurströnd Bandaríkjanna og hann sagði okkur svo margt fallegt um landið, og við ákváðum að kíkja!
Hvernig er þetta hægt? Við förum vel með alla hluti og leyfum okkur engan munað. Jay vinnur oftast um það bil 6 mánuði á ári og það nægir okkur. Það er engin vél í bátnum, förum allt á seglum, rafmagn af skornum skammti frá sólarrafhlöðum og oft getum við fiskað í soðið. Á Íslandi finnst okkur lambakjötið mjög gott og tiltölulega ódýrt, og skyrið er ljúffengt, og það er algjör lúxus að geta farið í sund fyrir tvo dollara.
IMG_0449
Seinastliðinn vetur voru stelpurnar, Sol 9 ára og Luna 8 ára í frönskum skóla á eyjunni Martinique, en í vetur ganga þær í Austurbæjarskólann og eru byrjaðar að þreifa sig áfram á íslensku. Já, þær ganga í skólann, frá Gömlu höfninni við Kaffivagninn þar sem báturinn þeirra Messenger liggur við bryggju. Sú yngsta, Caribe 2 ára, leikur sér um borð í bátnum og ritara fannst nóg um þegar hún skokkaði um dekkið, en sú stutta var býsna örugg með sig.
Í mars á næsta ári á Natasha von á sér. Hún segist hafa fætt Garbie um borð og ljósmóðirin hafi verið Jay. Það verður eins í mars segir hún og brosir.

FaxaportsFaxaports linkedin