Í tengslum við sjómannadaginn í Reykjavík hafa Faxaflóahafnir látið útbúa og setja upp útisýningu á Miðbakka – sýning sem hefur notið mikillar vinsælda allra þeirra gesta sem heimsækja hafnarsvæðið árlega.

Sýningin í ár nefnist Sjóslys við Ísland frá 1870 og sýnir í kortum og myndum hvernig þróun skipsskaða hefur verið við Íslandsstrendur allt frá þar seinustu öld. Sérstök áhersla var lögð á bresk skip sem birtast sér á tveimur sýningarspjöldum. Efnið sem tekið hefur verið saman á myndrænan hátt er afar fróðlegt og snertir bæði Íslendinga jafnt sem erlenda gesti okkar.  Það eru þeir Agnar Jónas Jónsson skipasmiður,  Guðjón Ingi Hauksson sagnfræðingur og grafískur hönnuður og Guðmundur Skúli Viðarsson, ljósmyndari og verkefnisstjóri sem hönnuðu sýninguna, en Hans Hansson landfræðingur vann Íslandskortið.

Við öflun efnis var stuðst við bestu fáanlegu sagnfræðilegu heimildir, þó eru heimildir frá því fyrir 1900 geti bæði verið óáreiðanlegar og misvísandi. Höfundar lögðu faglegt mat á þær upplýsingar sem til staðar voru og grundvölluðu sitt mat á þeim.

Það er von höfunda sýningarinnar að með henni sé virðingu og minningu við sjómannastéttina haldið á lofti – en sjómenn hafa í aldanna rás tekist á við hættur sem óblíð náttúruöflin hafa boðið þeim.

„Hafnir eru í hlutarins eðli tenging lands við sjó og talandi um tengingar þá er sérlega gaman að geta tengt, með svona athyglisverða sýningu, hafnarsvæði við langa hafnarsögu í höfuðborginni – en ekki síður að tengja gesti og gangandi við lifandi höfn sem Gamla höfnin í Reykjavík sannarlega er“, segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

 

 

FaxaportsFaxaports linkedin