Ár 2018, föstudaginn 13. apríl kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 09:00.
Mættir:

Kristín Soffía Jónsdóttir
Þórlaug Ágústsdóttir
Einar Brandsson
Björgvin Helgason
S. Björn Blöndal
Líf Magneudóttir
Magnús Smári Snorrason
Marta Guðjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Ingibjörg Valdimarsdóttir

Auk þess sátu fundinn: Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri, Guðmundur Eiríksson, forstöðumaður tæknideildar, Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsfulltrúi og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð.

  1. Erindi Nýs Landspítala dags. 23. mars 2018 þar sem óskað er eftir að skoða verði hvort mögulegt sé að nýta uppgröft af lóð spítalans til landfyllingar. Minnisblað hafnarstjóra dags. 6.4.2018.
    Hafnarsstjórn samþykkir að óska heimildar Reykjavíkurborgar fyrir landfyllingu við Klettagarða í samræmi við fyrirliggjandi minnisblað.

 

2.  Ályktun um loftslagsmál.
Ísland hefur undirgengist skuldbindingar í loftslagsmálum með undirritun Parísarsamkomulagsins og skuldbundið sig til að ná ákveðnum árangri fyrir árið 2030. Faxaflóahafnir sf. hafa ásamt 104 fyrirtækjum á Íslandi undirritað yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum og aðgerðir til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. Loftslagsmál eru því einn af meginþáttum vottaðarar umhverfisstjórnunar fyrirtækisins. Ísland er háð siglingum og auðlindum hafsins og því blasir sú skylda við að grípa verði til markvissra aðgerða svo vinna megi gegn hlýnun og súrnun sjávar.
Með auknum siglingum á norðurhöfum eykst mengun og hætta á mengunarslysum ef ekkert er að gert. Aðgerðarleysi leiðir einnig til þess að minni líkur eru á því að skuldbindingar Parísarsamkomulagsins verði uppfylltar.
Ríkisstjórn Íslands hefur fullgilt svonefndan VI viðauka alþjóðlega umhverfissamningsins MARPOL, sem fjallar um varnir gegn mengun frá skipum og lýst því yfir að stefnt sé að banni við notkun á svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Um leið og stjórn Faxaflóahafna sf. fagnar fullgildingu Viðauka VI er skorað á ríkisstjórnina að stíga nú þegar markviss skref í að banna notkun svartolíu sem eldsneyti á skip. Með banni við notkun á svartolíu væri tekið augljóst og árangursríkt skref til að draga úr mengun frá skipum á hafsvæðinu umhverfis Ísland og um leið send sterk skilaboð um stöðu og stefnu Íslands í umhverfismálum. Af illri nauðsyn hafa lönd sem liggja að Norðursjó og Eystrasalti innleitt svonefndar ECA reglur (Emission Controled Area), sem takmarkar innihald brennisteinssambanda í eldsneyti skipa umfram þær reglur sem teknar verða upp við Ísland árið 2020. Engin ástæða er til að bíða þess að ill nauðsyn krefjist slíkra reglna og því hvatt til þess að undirbúa nú þegar innleiðingu ECA reglna innan efnahagslögsögu Íslands.

Á grundvelli reglugerðar um brennisteinsinnihald eldsneytis skipa hefur stjórn Faxaflóahafna samþykkt að öll skip sem geta tengst rafmagni skuli landtengd meðan þau liggja í höfn. Unnið er að styrkingu á núverandi rafdreifikerfi hafnarinnar með það að markmiði að tengja fleiri skip en mögulegt hefur verið hingað til. Stærri skip, svo sem flutningaskip og skemmtiferðaskip verða ekki tengd rafmagni frá landi nema til komi háspennukerfi, sem er kostnaðarsamt verkefni. Þær erlendu hafnir sem hingað til hafa komið upp slíkum búnaði hafa notið til þess verulegra styrkja frá opinberum aðilum. Af hálfu Faxaflóahafna sf. er áhugi á því að háspennukerfi verði komið fyrir í nýjum hafnarbakka utan Klepps og samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að hagkvæmni þess verði skoðuð í samvinnu við hagsmunaaðila. Jafnframt lýsir stjórn Faxaflóahafna sf. yfir vilja til að skoða samstarf við hagsmunaaðila um önnur tækifæri í aukinni notkun raforku, sem fallin eru til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hafnarsvæðum fyrirtækisins.

Í tillögu að þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 er m.a. kveðið á um styrkja innviði fyrir rafvæðingu hafna, þ.m.t. aðgengi að raforkutengingum í höfnum. Þetta eigi að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Til þess að ná árangri í háspennuvæðingu hafna er ljóst að til þarf að koma stefnumótun ríkis og fjárframlag til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Stjórn Faxaflóahafna sf. lýsir yfir vilja til þess að taka þátt mótun stefnu á þessu sviði, en mikilvægt er að orkufyrirtæki og fulltrúar skipaútgerða komi einnig að málum. Með landtenginu stærri skipa og tilkomu afhendingarbúnaðar háspennu er án vafa unnt að ná raunverulegum árangri í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda í höfnum landsins, en þeim árangri verður ekki náð nema með samstilltu átaki allra aðila.

3. Ársreikningur Hafnasambands Íslands fyrir árið 2017.

Lagður fram.

4. Skarfabakki – aðstaða og þjónusta vegna komu skemmtiferðaskipa. Minnisblað varðandi stöðu mála og aðgerðir.

Gerð var grein fyrir stöðu mála og verkefnum í tengslum við aðstöðu og þjónustu á Skarfabakka.

5. Ályktun Bryggjuráðs, stjórn íbúasamtaka Bryggjuhverfisins og Hverfisráðs Grafarvogs varðandi smábátahöfnina í Bryggjuhverfi dags. 13. mars 2018. Minnisblað aðstoðarhafnarstjóra dags. 9. apríl 2018.

Samþykkt að senda Bryggjuráði og stjórn íbúasamtaka Bryggjuhverfis minnisblað aðstoðarhafnarstjóra.

6. Erindi N1 dags. 13.3.2018 þar sem óskað er eftir svæði undir eldsneytisafgreiðslu fyrir smábáta í Norðurbugt.

Hafnarstjórn tekur jákvætt í erindið.

7. Skýrsla stjórnar Spalar 2017.

Lögð fram.

Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 10:00