Ár 2022, föstudaginn 24. júní kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 13:00

Mætt: Skúli Helgason, formaður Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Örn Þórðarson Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf Daníel Ottesen Magnús S. Snorrason Ragnar B. Sæmundsson

Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi

Auk þeirra voru á fundinum Inga Rut Hjaltadóttir sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Gunnar Tryggvason starfandi hafnarstjóri sem ritaði fundargerð. Snæfríður Einarsdóttir, ráðgjafi í gæðamálum sem sat undir 3ja lið og Helgi Laxdal, sviðstjóri innviða undir 5 lið. 1. Öryggi, heilsa og umhverfi Ekkert fjarveruslys hefur orðið frá 29.11.2021 og ekkert skyndihjálparslys frá 02. 03.2022. Tjón varð á Kleppsbakka þegar leiguskip Eimskips, Vera D, sigldi á hann. 2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra. 3. Stefnur Faxaflóahafna Snæfríður Einarsdóttir ráðgjafi í gæðamálum kynnti fyrir stjórn jafnlaunastefnu og jafnréttisstefnu Faxaflóahafna og voru þær samþykktar samhljóða. Jafnframt kynnti hún „Hlutverk, framtíðarsýn og stefnumarkmið Faxaflóahafna“, en stefnt er að afgreiðslu þeirrar stefnu á haustmánuðum. 4. Tillaga að arðgreiðslu fyrir rekstrarárið 2021 Stjórnarformaður lagði til að gerð yrði tillaga til aðalfundar um að arðgreiðsla til eigenda fyrir rekstrarárið 2021 yrði 766,0 milljónir króna, sem skiptist á eignaraðila eftir eignarhlutföllum. Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson greiddu atkvæði á móti tillögunni en aðrir stjórnarmenn samþykktu tillöguna og telst hún því samþykkt. Skúli Helgason, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sabine Leskopf, Daníel Ottesen, Magnús S. Snorrason og Ragnar B. Sæmundsson lögðu fram eftirfarandi bókun „Rekstur Faxaflóahafna á síðasta ári var góður og var niðurstaðan ársins vel umfram væntingar sem sést á því að hagnaður ársins varð ríflega 851 m. kr en áætlun hafði gert ráð fyrir 45 m. kr hagnaði. Fjárhagsstaða Faxaflóahafna er afar sterk eins og fram kemur í ársreikningi fyrir síðasta ár en eigið fé félagsins er hátt, langtímaskuldir engar og sjóðsstreymi sterkt. Félagið er því afar vel í stakk búið til að ráðast í þær fjárfestingar sem fyrirhugaðar eru á komandi árum. Gert er ráð fyrir lántöku árið 2024 til að fjármagna hluta af þeim fjárfestingum sem fyrirhugaðar eru en allar forsendur liggja fyrir því að félagið geti áfram skilað góðri afkomu samhliða því að halda úti nauðsynlegum fjárfestingum á innviðum sem skili félaginu tekjum í framtíðinni. Í þessu ljósi ber að skoða tillögu stjórnar að arðgreiðslu sem gerir ráð fyrir að arðgreiðsla ársins verði 766 m. kr sem skiptist milli eigenda í samræmi við eignarhluti. Það er fagnaðarefni að sá hluti hagnaðar sem eftir verður í félaginu verður umtalsvert hærri en ef fjár¬hags-áætlun ársins hefði gengið eftir, eða rúmlega 85 mkr. Það verkefni bíður nýrrar stjórnar að móta stefnu um fjármagnsskipan félagsins og sömuleiðis arðgreiðslustefnu sem tekur mið af sterkri fjárhagsstöðu fyrirtækisins og nútímalegum stjórnarháttum.“ Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson lögðu fram eftirfarandi bókun: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Örn Þórðarson og Marta Guðjónsdóttir telja að um of háar arðgreiðslur sé að ræða eða 90% af hagnaði af reglulegri starfsemi félagsins 2021. Sjaldgæft er að slíkt hlutfall af hagnaði fyrirtækja sé greitt sem arður til eigenda. Bent er á að hægt sé að stilla arðgreiðslum í hóf og nýta hagnaðinn frekar til að geta stillt vörugjöldum í hóf. Einnig liggur fyrir að taka þarf lán fyrir innviðaframkvæmdum árið 2024. Ástæða er til að taka undir mikilvægi þess að fjárhagsstefna og arðgreiðslustefna fyrirtækisins liggi fyrir sem fyrst og því fagnað að sú vinna sé í bígerð.“ 5. Staða landtenginga Helgi Laxdal, sviðsstjóri innviða kynnti stöðu landtengingaverkefna og næstu skref. 6. Forkaupsréttarmál a. Erindi RA5 ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Hólmaslóð 4, Reykjavík. Fasta nr. 200-0093, 221-3282, 221-3284, 221-3286, 221-3287, 221-3288 og 228-1465. Kaupandi SH fasteignir ehf. b. Erindi Andvara ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign í Skútuvogi 1, Reykjavík. Fasta nr. 230-2067 og 230-2066. Kaupandi BSI á Íslandi ehf. c. Erindi Olís ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Klettagörðum 27, Reykjavík. Fasta nr. 235-0238. Kaupandi BBL 177 ehf. Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi. 7. Akraneskaupstaður 80 ára. Ósk um styrk til að mála gafla á nokkrum húsum. Hafnarstjóra falið að afla frekari upplýsinga og leita eftir samþykki stjórnar á milli funda. 8. Dagskrá og undirbúningur aðalfundar Farið yfir dagskrá aðalfundar sem hefst rétt eftir að þessum fundi lýkur. 9. Önnur mál Engin önnur mál. Fundi slitið 14:45

FaxaportsFaxaports linkedin