Þegar ákveðið var að byggja kísiljárnverksmiðju á Grundartanga var samhliða ákveðið að byggja nauðsynleg hafnarmannvirki. Umfjöllun um byggingu verksmiðjunnar á Grundartanga átti sér stað um og í kringum árið 1975. Íslenska Járnblendifélagið hf. var stofnað árið 1975 og hófust byggingarframkvæmdir við verksmiðjuna árið 1977, en framleiðsla hófst árið 1979. Fyrsti áfangi Grundartangahafnar var byggður á sama tíma, en um var að ræða 70 metra viðlegukant ásamt baklandi. Sýslunefndir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu áttu samtals 25% eignarhlut í höfninni, Innri Akraneshreppur, Skilmannahreppur, Leirár- og Melahreppur og Hvalfjarðarstrandarhreppur áttu 10% hlut hver, en Akraneskaupstaður átti 35% eignarhlut. 1. janúar 2005 voru þessir eignarhlutir síðan lagðir inn í sameinað hafnarfyrirtæki, Faxaflóahafnir sf. 

Höfnin þjónaði aðallega Íslenska Járnblendifélaginu hf. allt þar til árið 1998 að Norðurál hf. hóf þar stafsemi, en Sementsverksmiðjan notaði einnig höfnina til innflutnings á kolasalla auk þess sem ýmis smærri innflutningur fór um höfnina.

Árið 1998 var höfnin stækkuð með 250 metra viðlegukanti og baklandi í tengslum við byggingu Norðuráls og á árunum 2004 – 2006 voru bryggjumannvirkin lengd enn um 250 metra þannig að heildarlengd viðlegukanta eru um 570 metrar. Á sama tíma hefur bakland hafnarinnar verið að þróast og stækka.

Hafnarsjóður Grundartangahafnar keypti á árinu 2003 land Klafastaða og tryggði sér þannig framtíðar þróunarland til næstu áratuga og á árinu 2006 keyptu Faxaflóahafnir sf. land Kataness og lóðir undir stóriðjuverunum á Grundartanga.

Samtals eiga Faxaflóahafnir sf. um 620 hektara lands á Grundartanga, sem verða þróaðir fyrir hafnar- og iðnaðarstarfsemi á næstu árum.

Um 250 skipakomur eru hvert ár á Grundartanga og flutningar um höfnina eru um 1,1 milljón tonna.

Aðstæður til frekari hafnargerðar á Grundartanga eru góðar og landrými gott til frekari þróunar á næstu árum.

 

 

FaxaportsFaxaports linkedin