Ár 2022, föstudaginn 18. febrúar kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og um fjarfundarbúnað og hófst fundurinn kl. 9:00

Mætt

Skúli Helgason, formaður
Örn Þórðarson
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Daníel Ottesen
Sabine Leskopf
Magnús Smári Snorrason
Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi

Um fjarfundabúnað

Marta Guðjónsdóttir
Ragnar B. Sæmundsson
Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi

Auk þeirra voru, Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskiptasviðs, um fjarfundarbúnað, og Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Ekki höfðu orðið alvarleg slys eða umhverfisatvik frá síðasta fundi. Aftakaveður gekk yfir Faxaflóasvæðið 6. og 7. febrúar. Ekki urðu tjón af völdum veðursins en hafnarþjónustan sinnti mörgum verkefnum við að tryggja skip og báta.
Faxaflóahafnir tóku þátt í Schengen forúttekt með Ríkislögreglu-stjóra, Eimskip og norskum úttektaraðilum, í mánuðinum.

2. Eigendastefna og sameignarfélagssamningur
Helga Hlín Hákonardóttir, ráðgjafi stjórnar, tók þátt um fjarfundarbúnað, undir þessum lið. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir greindi frá vinnuframlagi undirbúningshóps og fundum hópsins með eigendum. Helga Hlín kynnti niðurstöður undirbúningshópsins með breytingum á sameignarfélagssamningi og nýjum drögum að eigendastefnu. Tillaga að nýjum sameignarfélagssamningi gerir ráð fyrir breytingum á skipan stjórnar og fékk það nokkra umræðu. Fundur með öllum eigendum (kjörnum fulltrúum borgar- bæjar- og sveitastjórna eigenda) verður haldinn 22. febrúar nk. Að þeim fundi loknum verða endanleg drög send eigendum. Stefnt er að því að bera tillögur um sameignarfélagssamning og eigendastefnu upp til samþykktar á næsta aðalfundi félagsins, í júní 2022.

3. Tölfræði 2021
Hafnarstjóri fór yfir tölfræði 2021 um skipakomur, vöruflutninga, farþegaflutninga og landaðan afla um hafnir Faxaflóahafna. Upplýsignarnar hafa verið birtar á heimasíðu.

4. Uppgjörskynning 2021
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi og uppgjörskynning. Sviðsstjóri Viðskiptasviðs fór yfir kynninguna og svaraði spurningum. Þegar endurskoðendur hafa lokið sinni vinnu verður boðað til aukafundar stjórnar og ársreikningur lagður fram til samþykktar.

5. Framkvæmdir og skipulag

i. Vatnsveita á Grundartanga

Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi minnisblað um mikilvægi vatnsöflunar fyrir framtíðaruppbyggingu Græns hringrásargarðs á Grundartanga. Hafnarstjórn samþykkti eftirarandi bókun en Daníel Ottesen sat hjá við afgreiðslu bókunarinnar:

Hafnarstjórn Faxaflóahafna hvetur sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit til þess í tengslum við yfirstandandi vinnu við endurskoðun á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar að bæta þar við skilgreindu svæði í botni Hvalfjarðar sem mögulegu vatnstökusvæði. Með því verði haldið opnum möguleikum á áframhaldandi uppbyggingu á Grundartanga en forsenda hennar er að svæðinu verði tryggt nægjanlegt vatn til framtíðar.

6. Starfsáætlun stjórnar
Starfsáætlun stjórnar sem áður hafði verið kynnt á 215. fundi, 21. janúar 2022, var lögð fram til samþykktar með lítilsháttar breytingum og samþykkt af stjórn.

7. Forkaupsréttarmál:

a. Erindi Jan Gunnars Davidssonar um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Fiskislóð 45, Reykjavík. Fasta nr. 228-4619. Kaupendur eru Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson.

Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.

b. Erindi Skeljungs hf. um að fallið sé frá forkaupsrétti að fasteignum vegna sölu á eignum Skeljungs við Hólmaslóð 1 Fasta nr. 200-0005, Hólmaslóð 2 Fasta nr. 200-0012, Hólmaslóð 4 Fasta nr. 225-4978, Hólmaslóð 5 Fasta nr. 200-0039, Hólmaslóð 6 Fasta nr. 200-0023, Eyjargarður 1 Fasta nr. 223-7937 og Eyjargarður 2 Fasta nr. 224-0936. Kaupandi er Gallon ehf. sem er dótturfélag að fullu í eigu Skeljungs hf.
Málinu var frestað á þeirri forsendu að fyrirliggjandi gögn væru ekki fullnægjandi. Ekki er efnislegur ágreiningur í stjórn um málið og liggur fyrir vilji til að falla frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvörum miðað við að fyrirliggjandi drög að kaupsamningi milli Skeljungs hf. og Gallons ehf. verði undirrituð og berist félaginu.

8. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.

9. Starfskjaramál
Starfsfólk Faxaflóahafna vék af fundi undir umræðu um þennan lið.
Formaður fór yfir kynningu á niðurstöðu úr kjarakönnun Intellecta sem Faxaflóahafnir tóku þátt í. Rætt var um mikilvægi þess að stjórn markaði félaginu starfskjarastefnu og var samhljómur um að sett yrði á fót starfskjaranefnd með einum fulltrúa stjórnar og tveimur utanaðkomandi aðilum sem hafa góða þekkingu og yfirsýn yfir kjaramál á markaði. Hlutverk hennar verði að móta tillögur sem lagðar verði fyrir stjórn til afgreiðslu.

10. Önnur mál
Ekki voru önnur mál og var fundi slitið kl. 11:10.

FaxaportsFaxaports linkedin