Sumarið 2023 var í sjöunda sinn framkvæmd könnun á atvinnustarfsemi í Gömlu höfninni. Alls tóku forsvarsmenn 151 fyrirtækja þátt með því að skila inn svörum við stöðluðum spurningum er varða þróun á hafnarsvæðinu og önnur málefni því tengd.

Í ljós kom að flest fyrirtækjanna störfuðu á sviði þjónustu, samtals 36 fyrirtæki. Fyrirtæki í flokknum hafa verið á niðurleið frá árinu 2013, en ætla má að stór hluti þeirra hafi fært sig yfir í nýrri flokka, t.a.m. flokkinn ferðaþjónusta sem var næst fjölmennastur í ár með 29 fyrirtæki. Fjöldi hafsækinna fyrirtækja taldi 39, sem skilaði 3,9% hækkun hlutfallslega ef miðað er við fjölda fyrirtækja sem tóku þátt. Um helmingur fyrirtækja eða 76, sagði alla sína starfsemi fara fram innan hafnarsvæðisins, þá voru aðeins 29 sem sögðu að minnihluti hennar færi fram innan hafnarsvæðisins.

Fjöldi starfsmanna á hafnarsvæðinu taldi samtals 5062, þar af voru 1550 í hlutastarfi. Það er fjölgun um 309 starfsmenn samanborið við síðustu skýrslu, sem teljast má óvænt í ljósi þess að fjöldi þátttakenda fækkaði. Því má áætla að mikill vöxtur sé hjá fyrirtækjum hafnarsvæðisins. Mikill meirihluti sagði starfsemi sína byggjast á einhvers konar dagvinnu eða 121 fyrirtæki. Þá voru fáir sem sögðu að um næturvinnu væri að ræða eða 12 fyrirtæki.

Lóðir í eigu Faxaflóahafna sf. á hafnarsvæðinu töldu samtals 362.311 m2 og voru fasteignir á þeim lóðum 169.993 m2, var það hækkun um 8,23% og 3,43% hvort um sig, samanborið við síðustu skýrslu. Samanlagt virði lóða var 9.437.426.210 kr. um 22,14% hærra en í síðustu skýrslu. Leigutekjur ársins voru 179.921.101 kr. sem einnig sýndi hækkun samanborið við síðustu skýrslu eða 32,02%.

Mikill meirihluti fyrirtækja er í leiguhúsnæði eða 115 fyrirtæki. Þá voru 36 sem sögðust vera í eigin húsnæði. Almennt þótti fyrirtækjum staðsetning sín við höfnina mikilvæg, en meðtaltal var 3,66 af 5, þar sem 1 merkti ekki mikilvæg og 5 merkti mjög mikilvæg. Flest fyrirtækjanna stefndu að því að halda athafnasvæði sínu óbreyttu eða 116 fyrirtæki, 33 stefndu að stækkun og 2 að minnkun. Þá voru 36 fyrirtæki sem sögðust hafa aðstöðu annars staðar á hafnarsvæðinu.

Bornar voru fram fjórar spurningar sem sniðnar voru að málefnum hafnarsvæðisins í dag. Fyrsta spurningin varðaði umferðartengingar að Gömlu höfninni, alls bárust 115 svör og var hlutfall jákvæðra svara um 42%, sem er bæting frá síðustu skýrslu. Næsta spurning varðaði uppbyggingu fyrirtækja í Gömlu höfninni, þar bárust 120 svör og um 80% sýndu jákvætt viðhorf gagnvart þróuninni. Síðustu tvær spurningarnar vörðuðu framtíðaruppbyggingu fyrirtækja á hafnarsvæðinu, en að auki bauðst forsvarsmönnum að koma á framfæri sérstökum athugasemdum til Faxaflóahafna sf, bárust þar 51 athugasemdir. Þekking viðmælenda á umhverfismálum var á heildina litið yfir meðallagi, en meðaltal var 2,93 þar sem forsvarsmönnum var gefinn skali frá 1 upp í 5, þar sem 1 merkti mjög illa og 5 merkti mjög vel.

Ljóst þótti að almennt ríki ánægja með þá þróun sem er að á sér stað í Gömlu höfninni. Hinsvegar er samhljómur um það að ekki eigi að raska starfsemi hafsækinna fyrirtækja, en slíkt hefur verið einnig verið áberandi í síðustu skýrslum.

Skýrsluna má nálgast á eftirfarandi slóð: https://www.faxafloahafnir.is/wp-content/uploads/2024/05/FAX-Atvinnustarfssemi-gamla-hofnin-FINAL-web-160524-1.pdf

FaxaportsFaxaports linkedin